Beint í efni

Ég stytti mér leið framhjá dauðanum

Ég stytti mér leið framhjá dauðanum
Höfundur
Einar Már Guðmundsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Þorgerður E. Sigurðardóttir

Hérna um árið spurði Ari ömmu sína um eilífðina í Aravísum Stefáns Jónssonar en það var víst fátt um svör, spurningum Ara er ei auðvelt að svara eins og allir vita. Ekki hefur mér heldur tekist að kortleggja eilíðfina en þó grunar mig að brot af henni hafi tekið sér bólfestu í nýjustu ljóðabók Einars Más Guðmundssonar sem kom út á dögunum hjá Máli og menningu. Hún heitir Ég stytti mér leið framhjá dauðanum en þetta er sjötta ljóðabók hans, síðasta ljóðabók hans kom út fyrir ellefu árum síðan.

Að sumu leyti kallast þessi bók á við fyrri ljóðabækur Einars Más, á köflum má finna sjónarhornið óhefðbundna og húmorinn sem einkennir fyrstu ljóðabækurnar og einnig má segja að hún tengist síðustu ljóðabók Einars Más, Í auga óreiðunnar, þar sem tilfinning fyrir uppgjöri er áberandi en ljóðmælandinn í nýju bókinni er einmitt gjarnan staddur á einhverskonar krossgötum eða tímamótum. Hann lítur yfir farinn veg og rifjar upp minningar sem eru misskýrar eins og gengur, en ég fékk á tilfinninguna að framtíðin skipti meira máli en fortíðin í þessari bók. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er nefnilega verið að fjalla hér um það sem er handan lífsins en þó er ekki beinlínis fjallað um dauðann, að minnsta kosti ekki í hefðbundnum skilningi.

Hér er nefnilega allt morandi mótsögnum. Stundum er tíminn sérdeilis áþreifanlegur og grimmd daganna nánast óbærileg, í ljóðinu „Enginn punktur“ er dögum smalað í réttir „og ekið í sláturhús“ og einmana fólkið sem býr í þokunni í ljóðinu „Allt þetta fólk“ er „ með andlit sem dagarnir slíta/einsog færibönd“. En þó á stundum megi greina eftirsjá eftir liðnum dögum er þó ljóst að það er eitthvað bak við dagana, eitthvað sem er handan við líf, dauða og jafnvel Guð. Hér er fjallað um löndin handan dauðans, í ljóðinu „Skammdegisóður“ er eilífðinni til dæmis líkt við sólkvika sali „sem speglast í lífinu“. Á einhvern furðulegan hátt verður eilífðin bæði sérlega áþreifanleg og jafnframt ósnertanleg í ljóðum þessarar bókar.

En þó að eilífðinni sé líkt við sólkvika Sali er ekki þar með sagt að ljóðin í bókinni einkennist af birtu og yl, að minnsta kosti ekki í eiginlegum skilningi. Hér eru nóttin og skammdegið nefnilega ríkjandi en eins og vill verða í skáldskap Einars Más hafa hlutirnir og hugtökin hér aðra ásýnd en við eigum að venjast. Hér er allt öfugsnúið, nóttin er í raun dagur og ljósið skammdegi eins og bent er á í „Næturljóði“: „Ég mun hella kaffi yfir sólina,/kveikja myrkrið í ljósum húsa“, í „Skammdegisóði“ er bent á að það megi nota dimmuna sem dag. Það er þannig mikil birta í þessu myrkri og ekki mikil ástæða til að örvænta. Mótsagnirnar eru heldur ekki mikil vandamál því það er „engin mótsögn að vera í mótsögn við sjálfan sig“ („Trúin á spurningarmerkið“). Þannig gengur þessi ljóðheimur einhvern veginn upp enda hlýtur eitthvað að vera að marka von sem á rætur sínar að rekja til myrkursins.

Ég stytti mér leið framhjá dauðanum er býsna margslungin bók, hún hristir upp í heimsmyndinni og fær lesandann oft og tíðum til að sjá margþvæld og hversdagsleg hugtök í öðru ljósi, það er ekki síst óvenjuleg notkun myndmáls sem heillar hér. Að því leytinu er þessi bók ögrandi þó róttæknin sé ekki jafn hnitmiðuð og í fyrstu ljóðabókum höfundarins enda er það líklegast ekki markmiðið. Þessi ljóð hoppa í fæstum tilvikum upp í fangið á manni eins og þægir kjölturakkar, þau krefjast mikils af lesendum sínum og stundum má segja að hugsunin sem að baki liggur hefði mátt vera hnitmiðaðri, það hefði án efa aukið áhrif sumra ljóðanna. En þegar á heildina er litið er þetta býsna mögnuð og óvenjuleg bók sem mun án efa höfða til metnaðarfullra ljóðglímukappa.

Þorgerður E. Sigurðardóttir, nóvember 2006