Beint í efni

drabb, Að malbika í rigningu, Dóttir sjóntækjafræðingsins

drabb, Að malbika í rigningu, Dóttir sjóntækjafræðingsins
Höfundur
Ægir Þór Jahnke
Útgefandi
Endahnútar
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Ljóð
drabb, Að malbika í rigningu, Dóttir sjóntækjafræðingsins
Höfundur
Örn Elvar
Útgefandi
Endahnútar
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Ljóð
drabb, Að malbika í rigningu, Dóttir sjóntækjafræðingsins
Höfundur
Ásdís Ingólfsdóttir
Útgefandi
Endahnútar
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Eva Dagbjört Óladóttir

Á liðnu sumri hóf Ægir Þór Jähnke, skáld og ritstjóri menningartímaritsins Skandala, söfnun á styrktarsíðunni Karolina Fund en henni var ætlað að fjármagna grasrótarútgáfuna Endahnúta sem hefði það að markmiði að aðstoða nýja höfunda við að koma fyrstu verkum sínum á prent. Nú eru Endahnútar komnir af stað og farnir að vinna að markmiði sínu en fyrir jól komu út hjá þeim þrjár ljóðabækur eftir nýja höfunda auk einnar eftir Ægi sjálfan. Þrjár þeirra, drabb eftir Ægi Þór, Að malbika í rigningu eftir Örn Elvar og Dóttir sjóntækjafræðingsins eftir Ásdísi Ingólfsdóttur, eiga það sameiginlegt að fjalla um hið hversdagslega og hið vanalega. Höfundarnir nálgast umfjöllunarefni sitt á ólíkan hátt en velta öll upp spurningum um hvernig við setjum saman daglegt líf okkar og hvaðan okkur komi efniviðurinn í þá smíð.

Í drabb fjallar Ægir Þór um hversdaginn sem bæði fyrirsjáanlega og fáránlega upplifun í senn. Ljóðin lýsa umhverfi og reynslu sem við þekkjum flest og sem eru oft, eins og titill bókarinnar bendir til, orðin frekar þvæld og sjúskuð. Saman við þetta fléttar hann þó furðum og fáránleika, allt frá litlum skringilegheitum upp í tæra sýru, og ákveðnum stóískum gálgahúmor. Ægir gerir líka tilraunir með tungumálið og ljóðahefðina sem vísa í ýmsa skóla ritlistarinnar, allt frá Dadaistum til hipphopp–byltingarinnar. Með þessu undirstrikar hann samvirknina milli daglegs líf og listsköpunar annars vegar, og einstaklingsbundinnar tjáningar og strauma og stefna listasögunnar hins vegar.

Þetta má m.a. sjá í haustljóðinu „Merkingarlaust á öllum vígstöðvum“ en það er eitt þeirra ljóða sem fara rólega í fáránleikann með undarlega öflugum árangri:

Ekkert markvert gerðist.

 

Laufin roðnuðu og féllu

af feimnislegri vanafestu

bílarnir héldu áfram að éta

malbikið og stöku barn

           sk

   op

          pa

     ði

á kvíðafullu trampólíni.

 

Tíðindalitlir dagarnir

sóttu um frí einn af öðrum

og áður en nokkur vissi

stóðu trén eftir nakin og við

neyddumst til að skrúfa frá ofnunum.

 

Sjávarstaða var með besta móti

þegar snjórinn tók

að f

a

 

l

 

l

 

a

 

.

 

 .

 

.

 

 .

   .

Ægir bregður upp mynd af samtímahausti með haustlaufum og kólnandi veðri þar sem allt gengur sinn vanagang, laufin falla, bílarnir keyra og krakkarnir leika sér. Hann notar ekkert stórkostlegt líkingamál eða tilfinningaþrungnar myndir, trén eru feimnislega vanaföst og dagarnir sækja kurteislega um frí. Útjaskaður hversdagurinn er svo ómerkilegur að það verður að tilþrifum í sjálfu sér, leiðindin svo leiðinleg að þau verða ekki bara áhugaverð heldur fyndin.

Reyndar éta bílarnir stöku barn en það virðist ekkert til að gera veður yfir. Börn og malbik eru nefnd í sömu andrá og börnin byrja að skoppa á trampólínum strax í næstu línu. Vaninn er svo sterkur að hann nær að gera jafnvel óhugnanlega atburði á borð við að bílar éti börn ofurvenjulega. Þetta speglar reynslu lesandans sem hefur örugglega oftar en einu sinni rennt geispandi í gegnum fréttir af banaslysum í umferðinni yfir morgunkaffinu.

Uppsetning ljóðsins er gamalkunn úr konkretljóðlistinni og skyldum skólum en orðið „skoppaði“ skoppar um síðuna og orðið „falla“ dettur niður hana einn staf í einu og endar á sjókomu úr fallandi punktum. Stafirnir teikna mynd á síðuna og formin sem þeir mynda bæta við ljóðið. Þannig er viðeigandi að svona hljóðlátt ljóð endi á nær ósýnilegri brotalínu af stöku punktum og tilfinningu fyrir snjókomu og þögn.
 

Meðan Ægir Þór rýnir í fáránleika hversdagsins mætti segja að Örn Elvar velti fyrir sér úr hverju hann sé samsettur. Í Að malbika í rigningu fjallar hann um lífið og ástina, djammið, sólarlandaferðir, söluturna og fiskvinnslu en tvinnar saman við þetta öllu ókunnuglegri hlutum á borð við stríð, hryðjuverk, ofbeldi og slys. Hann notar myndmál úr náttúrunni, úr umferðinni, af djamminu, úr Biblíunni, Evrópusögunni, sjómennsku, borgarlandslaginu og fréttatímum svo fátt eitt sé nefnt og e.t.v. ætti heildin sem hann sakapar að vera þversagnakennd. Því er þó einmitt öfugt farið en í ljóðunum birtist sannfærandi mynd af hugarheimi nútímamanns sem fylgist með fréttum, skreppur til útlanda, horfir á sjónvarpið og flakkar um á Netinu. Hugarheimur okkar allra er samsettur úr ógrynni upplýsinga úr öllum áttum og við rýnum sjaldan í uppruna þeirra hugmynda og skoðana sem móta hegðun okkar dags daglega.

Þannig er heimsmynd ljóðmælandans í Að malbika í rigningu bæði agnarlítil og gríðarlega víðtæk, samsett úr bæði hinu afdrifaríka og hinu ómerkilega. Þessari tvöföldu heimssýn er m.a. lýst í ljóðinu „Söluturn II (á löngum degi)“:

Ég sat við gluggann

og hrun gjaldeyrismarkaða

glumdi mér í eyrum

heyra mátti

lúðraþyt spilakassa

upphafsstefið úr ópusnum Alltof langur dagur

eftir engan

 

Ég gerði atrennu að lestri

á grein um þjóðarmorðin í Srebrenica

og púsluspilið

sem líffræðingar tóku sér fyrir hendur

 

Í skammdeginu

rann mér i brjóst

svo mig langaði á fund við kríuna

óminnugur þess að þær eru allar flúnar á brott

 

Þú dældir ísnum í brauðformin

af ísmeygilegri natni

ég sá að þú varst í upphöfnu skapi

því börnin sem vildu trúðaís

hlutu dauðagrímu Krists

Það er fátt venjulegra en spilakassar og trúðaís í sjoppu á rólegum degi en svið frásagnarinnar reikar eins og ósjálfrátt út fyrir þennan litla og afmarkaða heim. Umheimurinn birtist ekki aðeins á síðum dagblaðanna heldur verður tónlistin úr spilakössunum að tilkomumiklum lúðraþyt, trúðaísinn vísar í greftrunarsiði og trúmál og ljóðmælandinn hugsar um hegðun kríunnar.

Mannshugurinn er ófær um að takmarka sig við einn stað og eina stund og eftir upplýsingabyltinguna hefur hann svo ótal margar áttir að reika í. En það þýðir ekki endilega að hversdagurinn verði meira spennandi. Frekar er hætt við að þjóðarmorðin í Srebrenica verði hversdagsleg.


Mannshugurinn er líka eitt af viðfangsefnum Ásdísar Ingólfsdóttur í Dóttur sjóntækjafræðingsins. Í bókinni segir Ásdís frá konu sem virðist standa á tímamótum og líta yfir ævi sína frá bernsku til fullorðinsára. Ljóð og stærðfræði hafa fylgt henni alla ævi og frásögnin fjallar að miklu leyti um hvernig mannshugurinn starfar, hvernig við sköpum sífellt nýjar tengingar, setjum saman upplýsingar og smíðum úr þeim allt í senn, talnakerfi, hugsanir og ljóð. Form bókarinnar endurspeglar viðfangsefnið en hún er samsett úr ljóðum, teikningum, textabrotum og prósaljóðum sem saman mynda frásögnina.

Konan sem bókin segir frá er óhefðbundin í hugsun en lýsingarnar í bókinni minna sterkt á lýsingar einhverfra einstaklinga á reynslu sinni og hugarheimi. Hún á erfitt með að átta sig á hugsunum og hegðun annarra og rekur sig þess vegna ítrekað á í samskiptum. Upplifanir hennar virðast ekki stemma við upplifanir fólksins í kring um hana eins og þau séu ekki að upplifa sama hversdaginn. Þetta sést m.a. í prósaljóðinu „Ljóðgreining“:

Stundum hélt hún að hún væri álfur. Enginn tók eftir henni dögum saman og sjálfvirkar hurðar áttu það til að lokast á hana og hún skildi svo illa atferli mannanna. Til dæmis að yrkja ljóð. Hún skildi það ekki fyrr en pabbi hennar gaf henni handmálaðar babúskur. Inni í þeirri stærstu var önnur eins og inni í henni var enn önnur líka eins og þannig koll af kolli. Innst inni var sú minnsta, alveg eins og hinar en agnarsmá, gegnheil. Hún var ljóð.

Persónan skilur ekki að fólk yrki fyrr en hún finnur myndlíkingu sem hún getur notað til að hugsa um ljóð. Það mætti segja að það sé svona sem ljóð virka. Við leitum uppi nýjar tengingar, nýjar samsetningar af hugsunum og hugmyndum og þær gera okkur kleift að skoða lífið frá öðru sjónarhorni en við erum vön. Ljóðið gerir okkur kleift að sigrast á vanafestu í hugsun og nálgast hið venjulega eins og það væri óvenjulegt. Þá getum við oft hugsað hugsanir sem við náðum ekki taki á áður og jafnvel skilið eitthvað sem við skildum ekki fyrr.

Eins og áður sagði deilir persónan ekki heimsmynd með flestum í kring um hana. Því mætti segja að hún sé í sífellu að yrkja ljóð og leysa stærðfræðiflækjur. Hún er stöðugt að leita uppi nýjar leiðir til að sjá og kannski skilja. Hún opnar hverja babúskuna á fætur annarri þangað til hún kemur að agnarsmáa gegnheila kjarnanum sem er þarna einhversstaðar, við endann á talnarunu eða á bak við myndlíkingu.

Dóttir sjóntækjafræðingsins, Að malbika í rigningu og drabb eru innbyrðis ólíkar en hafa allar margt að segja lesandanum. Þær benda okkur á nýjar leiðir til að hugsa um heiminn sem við lifum í, til að skoða hvaðan við fáum upplýsingar, hvernig við vinnum úr þeim og hvað við sköpum með þeirri vinnu. Ég hlakka til að sjá hvað kemur næst, bæði frá þessum nýju skáldum og frá Endahnútum útgáfu.
 

Eva Dagbjört Óladóttir, desember 2020