Beint í efni

Aþena: Hvað er málið með Haítí?

Aþena: Hvað er málið með Haítí?
Höfundur
Margrét Örnólfsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
Sigurður Ólafsson

Ekki eru nema nokkrir áratugir síðan að hugtakið „unglingur“ þótti æði nýstárlegt. Fram að því voru skilin skörp á milli æsku og fullorðinsára, börn höfðu einfaldlega komist „í fullorðinna manna tölu“ strax upp úr fermingaraldri. Síðan hefur skilgreindu þroskaskeiðunum fjölgað og og bæði barns- og unglingsskeiðinu er deilt niður í fleiri hluta.

Síðustu ár hefur athygli ýmissa spekinga á sviði þroska- og uppeldisfræða beinst að hópi sem hingað til hefur verið fremur lítt kannaður. Þetta er hópur hinna stálpuðu krakka, á aldrinum 9-13 ára. Hópurinn hefur meira að segja fengið sitt nafn í fræðunum, er kallaður því lýsandi nafni „betweenagers“.

Þetta eru krakkar sem enn þá eru krakkar en eru þó komnir með allra fyrstu einkenni unglingaveikinnar og hvolpavitsins. Bók Margrétar Örnólfsdóttur, Aþena: Hvað er málið með Haítí?, er stíluð inn á þennan hóp. Aþena lýsir því sjálf í bókinni að hún hafi engan áhuga á því að verða unglingur en er þó farin að átta sig á því að þau örlög eru sjálfsagt óumflýjanleg. Aþena sveiflast einmitt, eins og krakkar á þessum aldri, á milli þess að vilja vera sjálfstæður unglingur og þess að vilja vera litla stelpan hennar mömmu sinnar áfram. Það er ekki alltaf einfalt.

Hér er um aðra bók Margrétar að ræða um Aþenu og fólkið hennar, vini og vandamenn.  Ævintýrin í þessari bók virðast vera í nokkuð beinu framhaldi af því sem henti Aþenu í fyrri bókinni. Lesendur þeirrar bókar bíða því sjálfsagt spenntir eftir því hvað á daga Aþenu drífur í þessari bók. Svo mikið má alla vega segja að vinátta Aþenu og bestu vinkonu hennar kemst í nokkuð uppnám þegar sú síðarnefnda fer að spá í stráka, hálfsystkini er á leið í heiminn og áætlanir um heimsókn til ömmunnar vestan hafs hanga í lausu lofti þegar amman hverfur til hjálparstarfa í rústum jarðskjálftanna á Haítí.

Margréti Örnólfsdóttur lætur mjög vel að skrifa texta fyrir þennan aldurshóp. Frásögnin er áreynslulaus, fjörug og beinskeitt. Aþena er sterkur karakter sem lætur engan yfir sig vaða. Margrét passar sig samt á því að búa ekki til einhvern algóðan karakter, Aþena er uppfull af innri mótsögnum og breyskleika, eins og við erum raunar öll. Það á svo við um aðrar persónur bókarinnar líka.

Það er enginn predikunartónn í þessari bók en ýmislegt ber þó á góma sem Aþena neyðist til að leggja mat á og verður henni til frekari þroska. Þar má nefna samskipti innan fjölskyldu, einelti og útskúfun, fordóma, jafnréttisbaráttu, sjálfsvirðingu og, síðast en ekki síst, unglingsárin sem bíða handan hornsins, heillandi og ógnvekjandi í senn.

Aþena: Hvað er málið með Haítí? er fín saga um hugsandi fólk á millistigsárum barnæsku og unglingaskeiðs.

Sigurður Ólafsson, desember 2010.