Beint í efni

Asmódeus litli, Sagan um Pomperípossu með langa nefið, Skrímslaleikur, Heimili, Stysti Dagurinn

Asmódeus litli, Sagan um Pomperípossu með langa nefið, Skrímslaleikur, Heimili, Stysti Dagurinn
Höfundar
Ulf Stark,
 Anna Höglund
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Barnabækur
Asmódeus litli, Sagan um Pomperípossu með langa nefið, Skrímslaleikur, Heimili, Stysti Dagurinn
Höfundar
Alex Wallengren,
 Guðrún Hannesdóttir
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Barnabækur
Asmódeus litli, Sagan um Pomperípossu með langa nefið, Skrímslaleikur, Heimili, Stysti Dagurinn
Höfundar
Áslaug Jónsdóttir,
 Kalle Güettler,
 Rakel Helmsdal
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Barnabækur
Asmódeus litli, Sagan um Pomperípossu með langa nefið, Skrímslaleikur, Heimili, Stysti Dagurinn
Höfundur
Carson Ellis
Útgefandi
AM forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Asmódeus litli, Sagan um Pomperípossu með langa nefið, Skrímslaleikur, Heimili, Stysti Dagurinn
Höfundar
Susan Cooper,
 Carson Ellis
Útgefandi
AM forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Bækur fyrir yngstu lesendurna eru nánast undantekningalaust myndskreyttar og er þá hvort tveggja jafn mikilvægt, myndir og texti. Best er þegar myndirnar lyfta textanum upp og öfugt. Hér á eftir verður fjallað um fimm myndskreyttar barnabækur sem ég hef hef lesið fyrir börnin mín þrjú undanfarnar vikur og þau hafa lagt mikið til málanna. Tvær þeirra eru lesendum ef til vill kunnugar nú þegar, nýjasta bókin um skrímslin eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal, Skrímslaleikur, og þýðing Guðrúnar Hannesdóttur á Sögunni um Pomperíupossu með langa nefið, eftir Axel Wallengren, sem kom fyrst út á íslensku árið 2001 með myndskreytingum Guðrúnar sjálfrar. Hér verður svo einnig fjallað um nýja þýðingu Guðrúnar á bókinni Asmódeusi litla eftir Ulf Stark með myndum Önnu Höglund. Loks verður fjallað um tvær bækur, Heimili og Stysti dagurinn, sem koma út í þýðingu Sverris Norlands hjá AM Forlagi sem hefur blásið ferskum vindum um íslenskan barnabókamarkað að undanförnu.

Skrímsli á bak við grímur

Skrímslin knáu, litla og stóra, þarf vart að kynna fyrir íslenskum börnum en þau hafa brallað ýmislegt frá því í fyrstu bókinni um þau sem kom út árið 2004 (Nei! sagði litla skrímslið). Í bókinni Skrímsli í heimsókn (2009) bættist svo nýtt skrímsi við en það er loðna skrímslið og nýjasta bókin, Skrímslaleikur, sú tíunda í röðinni, er sögð frá sjónarhorni þess. Eins og svo oft í skrímslabókunum snýst sagan um samskipti vinanna og hvernig þau leysa vandamál og misskilning sem upp kemur.

Á fyrstu blaðsíðunni stendur loðna skrímslið fyrir utan glugga sem dregið er fyrir, það er þó örlítil rifa á gluggatjöldunum og fyrir innan má sjá að það er kolniðamyrkur. Loðna skrímslið hefur ekki séð litla skrímslið og stóra skrímslið dögum saman því þau hafa lokað sig inni. Á næstu blaðsíðum fylgjumst við með loðna skrímslinu reyna að komast að því hvað vinir þess eru að bardúsa en það fær engin svör nema að það sé leyndarmál. Þessar fyrstu síður enda allar á sömu setningunni: „Þetta er mjög dularfullt.“ Slíkt stílbragð er algengt í bókunum um skrímslin og það hentar yngstu lesendunum mjög vel þar sem endurtekningar hafa örvandi áhrif á málþroska barnanna.  

Að lokum er loðna skrímslinu boðið inn og þá kemur í ljós að vinir þess hafa verið að undirbúa leiksýningu. Loðna skrímslið hefur hins vegar aldrei farið í leikhús og verður hrætt þegar vinir þess birtast í búningum, með grímur, og það þekkir þau ekki. Til þess að hjálpa loðna skrímslinu að sigrast á óttanum ákveða skrímslin þrjú að undirbúa brúðuleiksýningu öll saman.

Myndir Áslaugar Jónsdóttur eru, eins og hinum bókunum, litríkar og skemmtilegar. Persónueinkenni hverrar persónu kjarnast vel í myndunum og litlir lesendur, sem þekkja persónurnar nú þegar, eiga ekki í neinum vandræðum með að þekkja stóra skrímslið og litla skrímslið þó þau séu í búningum og loðna skrímslið þekki þau ekki. Litla skrímslið er í rauðu skónum sínum og með ógurlega rauða grímu og stórt og grænt nef stóra skrímslisins skagar út undan grímu þess.

Undir lok sögunnar er ein opna með engum texta, þar halda vinirnir á ýmsum brúðum og brosa út að eyrum. Þessa síðu vilja börnin mín skoða vel og lengi og rýna í ýmis smáatriði. Skrímslaleikur er skemmtileg viðbót við bækurnar um skrímslavinina sem takast alltaf á við vandamálin sem við þeim blasa og hjálpast að, hvert með sína styrkleika að vopni.

Listaverk á hverri síðu

Nýlega komu út tvær bækur með myndskreytingum Carson Ellis í þýðingu Sverris Norlands. Aðra bókina myndskreytir Ellis við ljóð eftir Susan Cooper sem heitir Stysti dagurinn en í hinni, Heimili, skrifar Ellis textann sjálf. Ellis er fyrst og fremst myndlistarkona og myndir hennar í báðum bókunum eru gullfallegar og margar þeirra gætu vel staðið einar og sér í fallegum ramma uppi á vegg.

Heimili fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um heimili af ýmsum toga. Textinn í bókinni er ekki mikill og það er augljóst að höfundur ætlar myndunum að fara með aðalhlutverkið. Myndirnar eru mikil listaverk og þó þær séu allar af heimilum vantar meiri samfellu í verkið. Textinn er því miður ekki nógu spennandi og þó hann sé í litlu magni þyrfti hann að vera meira grípandi. Það mætti í raun velta því fyrir sér hvort bókin hefði verið betri án nokkurs texta.

Það er erfitt að átta sig á því hvað Ellis vill færa fram með bókinni, sumar síðurnar virðast eiga heima í bók sem er ætlað að auka orðaforða barna eins og þar sem sjá má tvö misstór hús hlið við hlið og við annað þeirra stendur “Háreist heimili” og hitt “Lágreist heimili”. Aðrar myndir kitla hláturtaugarnar eins og ævintýraleg opna þar sem stór hópur fólks á sér bústað í skó.  En það sem undirritaðri fannst mest áberandi við lestur bókarinnar eru ónotaleg nostalgísk tengsl við myndir sem sýna staðalímyndir sem mikið hafa verið í umræðunni undanfarin ár og flestir eru sammála um að séu börn síns tíma.

Þó bókin hafi fyrst komið út á ensku árið 2017 en hún er í nokkurri andstæðu við tíðarandann. Má þar helst nefna eina opnu þar sem tvö hrein og strokin, hvít börn standa með móður sinni, sem í textanum er sögð vera hertogaynja í Slóvakíu, fyrir utan reisulegt hús með skjaldamerki. Á síðunni á móti stendur ungur drengur, dökkur á hörund fyrir utan hrörlegan kofa, þar býr kenýskur járnsmiður. Þetta er eflaust ekki með vilja gert heldur orsakast líklegast af samfélgaslegum hvítþvotti í gegum aldirnar sem höfundur hefur jafnvel ekki áttað sig á. Heimili er því bók sem í fyrstu virðist falleg og saklaus en við nánari skoðun leynist eitthvað misráðið á bak við sumar myndanna.

Samt sem áður getur verið gaman að lesa bókina með börnunum, en þá er jafnvel enn mikilvægara að ræða við þau um hlutina sem fyrir augu ber og hjálpa þeim að skilja að þær eru ekki fullkominn sannleikur um hin ýmsu heimili og fólk í heiminum. Á einni síðunni er að finna heimili japansks athafnamanns. Börnunum mínum þótti þetta heimili fyndið og skrítið en þegar þau spurðu hvers vegna húsið væri svona skrítið svaraði ég að þetta væri nú bara mynd í bók. Ég spurði þau svo hvort þau svo héldu að öll heimili í Japan væru svona og þau voru nú alveg viss um að það væri ólíklegt.

Stysti dagurinn fjallar um vetrarsólstöður. Textinn er ljóð eftir Susan Cooper frá árinu 1974, sem Ellis myndskreytti og gaf út árið 2019. Hér birtist ljóðið í fallegri þýðingu Sverris Norlands. Bókin hefur allt sem vantar upp á í Heimili, hún er heildstætt verk með fallegum samhljóm texta og mynda. Efniviðurinn er bitastæðari og myndir Ellis fá betri hljómgrunn og njóta sín betur.

Framan af eru myndirnar staðsettar í fortíðinni og sýna fólk, fatnað og húsakost af norrænum uppruna, en eftir því sem líður á bókina sýna myndirnar nútímalegt hús skreytt með jólaljósum, stofu með jólatré og sjöarma ljósastiku, og börn af allskonar uppruna sem fagna og bjóða jólin og bjartari tíma velkomin.

Og svo kom stysti dagurinn, og árið dó,

Það dimmdi og heimurinn hvarf undir snjó,

en fólkið dansaði og söng, með kerti og sígræna jurt,

til að særa myrkrið burt.

Ljóðið og myndirnar sýna börnunum eitthvað sammannlegt, sem spyr ekki um tímabil í mannkynssögunni, árin fara alltaf í hring og dagarnir syttast og lengjast svo á ný.

Stysti dagurinn er falleg bók þar sem samspil texta og mynda eru mjög góð, börn á öllum aldri geta notið bókarinnar og hún er sérstaklega skemmtileg fjölskyldulesning á dimmasta tíma ársins.

Sænskir ævintýraheimar

Sagan um Pomperípossu með langa nefið er sænskt ævintýri eftir Axel Wallengren frá 19. öld. Guðrún Hannesdóttir þýðir söguna og myndskreytir. Sagan segir af Pomperípossu sem er hræðileg galdranorn og bæði ljót og vond. Hún breytir öllum sem á vegi hennar verða í einhvern hlut eða dýr, í hvert sinn sem hún gerir það lengist á henni nefið.

Hún var með lítil augu en stóran munn og í honum voru aðeins þrjár tennur. Hún skaut upp kryppu og var með rauðar vörtur á höndunum. Ótrúlegast af öllu var samt nefið á henni, því það var álnarlangt og þegar hún tók í nefnið þurfti hún heila ausu af neftóbaki í hvora nös.

Ýmis þekkt ævintýraminni koma fyrir í sögunni eins og hús Pomperípossu sem er búið til úr sælgæti og prins og prinsessa sem nornin breytir í gæsir sem hún ætlar að éta. Allt endar þó farsællega og Pomperípossa breytist í stein og allt sem hún hefur galdrað verður samt á ný.

Sagan er klassískt ævintýri og myndir Guðrúnar tala vel inn í þann heim. Litirnir eru mjúkir og fallegir, dýrin og konungsbörnin eru einnig svo falleg að Pomperípossa með langa nefið og galdrakötturinn hennar ófrýnilegi verða ennþá ýktari í ljótleika sínum og illsku.

Við lestur á þessari sögu og öðrum sígildum ævintýrum getur verið áhugavert að eiga samtal við börnin um ýmis efnistök sem áður fyrr þóttu sjálfsögð og þykja ekki eiga eins vel við nú til dags. Það er þó alveg óþarfi að fara að breyta sígildum sögum þegar hægt ræða við börnin um atburði og persónur í sögunum. Til dæmis er hægt að velta því fyrir sér hvers vegna Pomperípossa sé svona ljót og vond? Eru allar vondar konur ljótar eða öfugt? Börn hafa oft svo skemmtilega sýn á heiminn að þau fá frábærar hugmyndir og slíkar vangaveltur geta bæði aukið gæðastundina við lesturinn og opnað huga þeirra fyrir því hvers vegna fólk er eins og það er.

Asmódeus litli eftir Ulf Stark, einnig í þýðingu Guðrúnar, er önnur sænsk saga sem einblínir á andstæðurnar í hinu ljóta og vonda á móti hinu fallega og góða. Töluvert meiri texti er í bókinni en þeim sem áður hefur verið fjallað um hér en engu að síður eru myndir Önnu Höglund mikilvægar í heildarmyndinni og hjálpa hinum skrautlegu karakterum og aðstæðum í sögunni að stimpla sig inn í litla kolla.

Asmódeus litli er sonur Myrkrahöfðingjans en hann er alls ekki illkvittinn eða vondur eins og fjölskyldumeðlimir hans í Undirheimum. Faðir hans sendir hann upp í mannheima til að sanna sig með því að sannfæra einhvern um að selja sál sína á hendur Myrkrahöfðingjanum. Enginn hefur mikla trú á Asmódeusi og þó hann leysi verkefnið á endanum gerir hann það á engan hátt eins og faðir hans hafði viljað.

Asmódeus sér heiminn með sakleysislegum augum sínum og þrátt fyrir að illska sé allt sem hann þekkir grunar hann engan um græsku sem kemur honum oft í koll. Sagan sýnir skýrt hvernig gott og illt eru ekki alltaf svart og hvítt og kjarnast vel í því þegar Asmódeus á samskipti við prest sem er hranalegur og klípur hann í nefið. Börnin uppi á jörðinni eru heldur ekkert skárri en þau í undirheimum þegar þau ganga í skrokk á Asmódeusi.

Þrátt fyrir að ýmislegt ófagurt hendi Asmódeus er sagan líka falleg og lýsingar á því hvernig Asmódeus sér ósköp venjulega hluti og dýr í mannheimum í fyrsta sinn eru barnslega tærar.

Hann gekk út á engið. Þar suðuðu flugur, smárablómin ilmuðu og þar stóð stór brún vera með horn og hala alveg eins og hann sjálfur og úðaði í sig safaríku grasinu. Þegar Asmódeus sá stórt og mjúkt júgrið skildi hann að þarna var kvenvera á ferð. (10)

Þó að sagan sé löng sogast börnin inn í framvinduna og mynd á hverri síðu heldur athyglinni á meðan textinn er lesinn upphátt. Þar hjálpar líka að sagan er oft alveg rosalega fyndin og ekki síst er það margt sem undirheimafólkið tekur upp á sem vekur kátínu barnanna. Þau ropa og prumpa og slíkt hittir alltaf í mark hjá litlum lesendum. Fyndast er þó þegar Asmódeus spyr pabba sinn hvað hann eigi að borða í mannheimum, það stendur ekki á svörum “Éttu lambaspörð, sagði pabbi hans. – Þau eru bæði holl og góð” (8). Síðar í sögunni verða lömb á vegi Asmódeusar og hann “fyllti alla vasa af lambaspörðum, hróðugur fyrir því að finna svona mikinn mat á förnum vegi” (16).

Asmódeus litli er skemmtileg saga um það hvernig drengur sem passar hvorki alveg inn í undirheimum né í mannheimum reynir að feta réttan veg með ansi frumlegum aðferðum.

Þó bækurnar fimm sem hafa verið til umfjöllunar hér að framan séu ólíkar eiga þær það allar sameiginlegt að vera listilega myndskreyttar og kveikja neista í ímyndunarafli ungra lesenda. Það er alltaf ánægjulegt þegar vandaðar barnabækur koma út á íslensku og það er ljóst að gróskan í barnabókaútgáfu hér á landi er mikil og njóta börn og foreldrar góðs af því. Fjölskyldur geta átt yndislegar gæðastundir við bókalestur nú þegar dimmasti tíminn er genginn í garð og allar bækurnar sem hér hafa verið teknar til umfjöllunar ættu svo sannarlega að koma við sögu á slíkum stundum.


Kristín Lilja, nóvember 2021