Beint í efni

Allt með kossi vekur

Allt með kossi vekur
Höfundur
Guðrún Eva Mínervudóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Síðasta skáldsaga Guðrúnar Evu Mínervudóttur hét Skaparinn. Nýja bókin hennar, Allt með kossi vekur, fjallar um sköpunarkraft, og hefst á sköpunarsögu Biblíunnar, eða einskonar útgáfu sögunnar af Adam og Evu í aldingarðinum og fallinu fræga. Sú saga birtist okkur í myndasöguformi og bókin innheldur að auki aðra myndasögu og eina myndskreytta sögu, en þær eru allar teiknaðar af Sunnu Sigurðardóttur.

Það er einmitt myndasöguhöfundur sem er ástæða þess að sögumaðurinn, Davíð, segir söguna sem birtist okkur í Allt með kossi vekur, en hann fær sendar eigur stjúpföður síns, Þorláks eða Láka, sem dáinn er fyrir nokkru. Meðal pappíranna eru nokkrar myndasögur, en Láki var þekktur myndasöguhöfundur, bæði á Íslandi og erlendis.

Nú staldra lesendur kannski við og hugsa sig um, eru til vinsælir myndasöguhöfundar á Íslandi? En þessi litla sögulega misfella er ekki eina dæmið um skáldaleyfi sem Guðrún Eva tekur sér, því sagan gerist á tímum Kötlugoss, árið 2003, en það hafði þá staðið yfir með hléum í tvö ár og valdið gífurlegri eyðileggingu á suðurlandi. Það verður því strax ljóst að Guðrún Eva er að leiða lesanda inn í heim sem er örlítið til hliðar við okkar þekkta veruleika, sem þó er svona almennt séð uppistaða verksins.

Þetta er svo enn frekar undirstrikað í meginþema verksins sem er listin og kossinn. Móðir Davíðs, Elísabet, telur sig hafa orðið fyrir einskonar kraftbirtingarhljómi listarinnar við það að vera kysst af ungum manni þegar hún var sjálf unglingsstelpa. Hún álítur að kossinn hafi breytt sér og gert sig að listakonu. Og það sem meira er, hún telur að hún geti borið þennan koss áfram, gefið hann öðrum, sem eru tilbúnir til að taka við samskonar upplifun.

En einn þeirra sem hún gefur þessa gjöf bregst ekki við sem skyldi, vissulega hefur kossinn mikil áhrif á hann en þau eru frekar til hins verra og er saga þess manns, og þó aðallega konu hans sem er gömul vinkona Elísabetar, stærsti hluti þeirrar sögu sem Davíð segir. Ingibjörg, eða Indi, er grátgjörn kona með kaupæði á háu stigi, en maður hennar, Jón, er þó enn skrýtnari karakter. Hann er einnig haldinn þráhyggju, en hann þolir ekki að hafa hluti í kringum sig. Því bregður hann á það ráð að byggja hillur uppi við loft í öllum herbergjum íbúðar hans og Indi og þar hleður hann öllum lausamunum: “Indi hafði engu logið. Heimili þeirra Jóns minnti á vísindaskáldskap. Þyngdaraflinu var storkað af slíkri einurð að Elísabet óttaðist að líða upp í loft ef hún gætti sín ekki. Hillurnar uppi undir lofti voru yfirfullar af bókum, kertastjökum, blómavösum, teppum, litlum hirslum með smádóti, styttum, tímaritum og pottaplöntum og sköpuðu ógnvænlegt mótvægi við annars tómleg húsakynnin” (113).

Það er því ljóst að maðurinn er ekki í góðu jafnvægi (bókstaflega eiginlega, með þessum undarlegu jafnvægiskúnstum hlutfalla á heimilinu) og því þarf ekki að koma á óvart að koss Elísabetar hefur róttæk áhrif. Hér ber að benda á að Guðrún Eva býður okkur uppá tvær leiðir til að skilja söguna, annarsvegar útfrá útgáfu Elísabetar um kraftbirtinguna og hinsvegar útgáfu Davíðs, sögumannsins, sem hafnar öllu slíku og vill meina að móðir hana hafi einfaldlega neytt eiturlyfja í óhóflegu magni og að ástæðan fyrir atburðarásinni sem hefst í kjölfar kossins sé áhrif eiturlyfja á Jón. Og þó. Það kemur fljótt í ljós að Davíð er ekki alveg eins viss og hann vill vera, enda fjallar bókin að hluta til um hann sjálfan og samband hans við þessa sérstæðu móður, og þarmeð einhverskonar leit hans að sjálfum sér.   Atburðirnir sem Davíð er að rifja upp og skrásetja gerast fyrir 13 árum – svo nú sögunnar er í framtíðinni, nánar tiltekið árið 2016, en sá tími kemur þó ekkert við sögu, utan að við kynnumst aðeins fjölskyldu Davíðs, en hann er ákveðinn í því að sinna dætrum sínum betur en móðir hans sinnti honum. En sú mynd sem við sjáum er vaxandi þráhyggju hans sjálfs gagnvart þessu viðfangsefni, sögu Indi, sem jafnframt er saga móður hans og Láka, og svo auðvitað Jóns. Þráhyggjan snýr að skilningi, leitinni eftir því að skilja sjálfan sig, móðurina og sambandið við hana. Þannig fær myndasagan í upphafi verksins aukið vægi í þessum vangaveltum um skilning og sköpun. Þrátt fyrir þessar áhugavekjandi tengingar þá fannst mér hluti (sjálfs/skilnings) leitar Davíðs ekki alveg nægilega sterkur og vaxandi þráhyggja hans ekki fyllilega undirbyggð.

Þáttur myndasagnanna kemur einnig fram í orðum Láka, þegar hann reynir að lýsa list sinni: “Ástæðan fyrir því að ég kýs að segja sögur með myndum er sú að ég trúi því að þannig komist ég nær því að höndla einhvern ósýnilegan mannlegan kjarna. Raunar er ég alltaf að höndla með hið ósýnilega. Þar verður galdurinn til. Í ginnungagapinu á milli ramma. Í togstreitunni milli myndar og texta. Í því sem ég gef til kynna eða ætlast til að lesandinn gefi sér ...” (115). Það má segja að þessi lýsing geti að mörgu leyti átt við margt af því sem Guðrún Eva fjallar um í þessari eftirtektarverðu skáldsögu.

Allt með kossi vekur er átakamikið og áhrifamikið verk og minnir að því leyti á eina af fyrri skáldsögum höfundar, Yosoy: Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss (2005). Hér er fjallað um mörk listar og geðveiki, meðal annars, auk þess sem náttúruhamfarir koma heilmikið við sögu, og segja má að það sé verið að spegla þessar hamfarir í listum og geðveiki við hamfarirnar og eyðinguna sem Katla veldur. Það er því margt um að vera í sögu Guðrúnar Evu og minniháttar veikleikar koma ekki í veg fyrir að Allt með kossi vekur er hiklaust ein af  athyglisverðustu og sterkustu skáldsögum þessa árs.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2011.