Beint í efni

Vetrarhörkur

Vetrarhörkur
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Ungmennabækur

um bókina

Vetrarhörkur er seinni hluti sögunnar Vetrarfríi.
Enginn veit hversu margir lifðu af geimveruárásina sem gerð var á landið. Bergljót og pabbi hennar eru enn í Vestmannaeyjum og nú hefur heyrst lífsmark frá Braga bróður hennar ofan af landi. Spurningarnar eru óteljandi: Hvað vilja geimverurnar? Er hægt að sigrast á þeim? Verður lífið einhvern tíma venjulegt á ný?

 

úr bókinni

Mamma hennar Bergljótar var vön að segja að hlutirnir litu alltaf betur út eftir góðan nætursvefn, en Bergljótu leið ekkert betur þegar hún vaknaði. Hún var bálreið. Út í geimverurnar en mest út í Heiðar. Og þessi ógeðslegu samtök sem hann vann fyrir. Bergljót hafði aldrei á ævinni upplifað þvílíka reiði, svona reiði sem lét hana langa til þess í alvöru að drepa einhvern. Hún hafði ekki vitað að hún ætti þetta til. Og bak við alla reiðina var sorgin og óttinn. Því Bragi var enn þá þarna úti, einn á meginlandinu.

Litli, viðkvæmi Bragi.

"Hvað finnst ykkur að við ættum að gera?" spurði Katla.

Þórbergur hallaði sér aftur í hægindastólnum og andvarpaði.

"Ég veit það ekki," sagði hann síðan.

Það suðaði í útvarpstæknu og Bergljót fylgdist með rauðum tölunum hækka þegar útvarpið leitaði að nýrri rás. Hún, pabbi hennar, Katla, Guðmundur, Begga og Magnea voru saman komin í loftskeytastöðinni til að ræða málin. Hún vissi ekki hvenær þau höfðu orðið teymi, kannski hafði ferðin til Þorlákshafnar treyst svona böndin á milli pabba hennar, Kötlu og Guðmundar. En hún var fegin, því það þýddi að þær Magnea myndu fylgjast að, sama hvert þau á annað borð færu.

"Ég skil ekki hvers vegna hann var loksins að segja frá þessu núna," sagði Guðmundur.

"Af því að annars fengi hann okkur ekki til að þiggja bólusetninguna. Hann hefði ábyggilega heldur viljað lauma þessu í matinn okkar ef hann hefði mögulega getað, en það er svolítið erfitt að sprauta fólk án þess að það taki eftir því.  Og hann þarf á okkur að halda. Hann má ekki við því að geimverurnar komi og við deyjum öll. Við stöndum líka miklu sterkar sem hópur. Hann á miklu meiri möguleika á að lifa þetta af ef við gerum það líka. Svo er hann með foreldra sem eru tekin að reskjast. Ég veit a Hólmfríður er enn spræk en Hlöðver er farinn að verða lélegur og hann getur ekki séð um þau bæði ef eitthvað kemur fyrir," sagði Katla.

Síðan leit hún á Bergljótu.

"Hvað finnst þér að við ættum að gera, Bergljót?"

Bergljót hrökk við. Hún leit framan í Kötlu. Ljósa hárið var úfið og hún var með dökka bauga undir augunum. Katla hafði líka grennst, kinnbeinin voru meira áberandi en áður. Kannski hafði hún verið að kasta upp. En augun í Kötlu voru ákveðin og hörkuleg. Bergljótu fannst hún sjá þar glitta í sömu reiðina og brann í brjóstinu á henni sjálfri.

Hún opnði munninn til að svara en lokaði honum svo aftur. Hún, sem hafði pirrað sig þúsund sinnum á því að það væri alltaf komið fram við hana eins og barn og á því að vera aldrei spurð álits á neinu, vissi svo ekki hvað hún átti að segja þegar hún fékk loks ósk sína uppfyllta.

( s. 58-59)  

Fleira eftir sama höfund

Vetrarfrí

Lesa meira

Doddi: bók sannleikans!

Lesa meira

Sláttur

Lesa meira

Doddi: ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Bók sannleikans!

Lesa meira

Ljónið

Lesa meira

Hingað og ekki lengra!

Lesa meira