Beint í efni

Undir himninum

Undir himninum
Höfundur
Eiríkur Guðmundsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Útvarpsmaðurinn E hefur um nokkra hríð ekki gert greinarmun á skáldskap og veruleika. Hann hefur gefið út greinasafn og verður fyrir aðkasti frá konum sem annaðhvort þekkja sig of vel eða alls ekki í bók hans. E leggur stund á ritstörf á milli þess sem hann heldur við giftar konur, ræðir menningarástandið eða fer í ljós. Dag einn gloprar hann póstkorti út um glugga sem er upphafið að enn frekari hremmingum.

Úr bókinni

Við kunningi minn vorum fljótir að gleyma atvikinu þegar drykkirnir voru komnir á borðið, fljótir að gleyma þessu óþægilega mannshvarfi í Bláa lóninu, að öðru leyti en því að kunningi minn fann sig knúinn til þess að rifja upp frásagnir af galisískum skáldum sem hefðu svipt sig lífi. Hann sagði að slíkt væri mjög algengt þar í landi, galisísk skáld væru sífellt að drekkja sér og finnast uppblásin og þembd á floti, jafnvel í öðrum löndum.

„Er það virkilega svo?“ spurði Antonio Mora. Og bætti við: „Portúgölsk skáld drekkja sér hvorki í stöðuvötnum, lónum né gosbrunnum, ef þau þurfa nauðsynlega að svipta sig lífi fara þau beinustu leið til Parísar.“

Þetta ræddum við á koníaksstofunni á Hótel Holti, innan um málverk af mosa og hrauni. Við sögðum Mora frá kenningum okkar um íslenska rithöfunda, ein var sú að á Íslandi væru tvenns konar skáldsagnahöfundar, annars vegar þeir sem skrifa ástarjátningar til manns eða konu sem allir vita hver er þótt höfundurinn telji sig hafa falið öll spor, hins vegar sagnamennirnir sem aldrei tæmast vegna þess að það er alltaf til nóg af brennivíni í Ríkinu og alltaf hægt að réttlæta sig og verkin með því að skírskota til Íslendingasagnanna. Við sögðum honum einnig frá undantekningunum, þær voru vissulega nokkrar og sönnuðu kenningu okkar. Antonio Mora virtist ekki heyra það sem við sögðum, hann virtist enn vera í leiðslu eftir daginn, eins og lónið hefði fært honum nýja drauma sem liðu um huga hans og gerðu hann fjarrænan. Honum þótti leitt að hafa týnst og var alvara með afsökunarbeiðninni. „Mér þykir miður að hafa valdið ykkur áhyggjum,“ sagði hann og fór með línu sem hann sagði vera úr ljóði eftir hann sjálfan (ég var ekki alveg viss um það): „Augun eru tjarnir og enginn þerrar þau nema dauðinn.“ Hvort sem Mora hafði lónið í huga eða ekki í þessu samhengi þá sátu orðin í mér. Síðan hellti hann okkur fulla.

Antonio Mora var örlítill besservisser. Ekki óforbetranlegur besservisser, heldur örlítill besservisser – á þessu tvennu er mikill munur, hann var með öðrum orðum ekki svo slæmur að segja að klukkan væri hálffjögur ef maður var nýbúinn að segja honum að hún væri hálffimm. En hann átti það til, á þeim fáu síðkvöldum sem við sátum í koníaksstofunni á Hótel Holti, eftir að auglýstri dagskrá bókmenntahátíðarinnar var lokið, að láta ljós sitt skína og hlýða okkur yfir efni sem tengdust sérsviði hans. Hann spurði hvort við vissum eitthvað um portúgalskar bókmenntir en beið ekki eftir svari heldur hallaði sér aftur í leðursófanum og byrjaði að tala. Hann minnti mig á pabba bernskuvinar míns (þó ekki pabba Sigurjóns), rafvirkja sem eitt kvöldið þegar ég fékk að gista (við höfum verið um það bil tíu ára gamlir) bað okkur grafalvarlegur að setjast niður með sér við eldhúsborðið. Þar setti hann upp enn meiri alvörusvip og spurði hvort við vissum eitthvað um rafmagn og það kom í minn hlut að þykjast hafa mikinn á huga á rafmagni á meðan sonurinn gat leyft sér að malda í móinn eins og villingur. Ég var sá ókunnugi, gestur á heimilinu og varð að vera kurteis enda meinti maðurinn vel, sonurinn gat hins vegar leyft sér að svara í hálfkæringi (eins og ég hefði viljað gera), láta eins og fífl og gefa fullkominn skít í rafmagnið. Það kvöld hafði ég mikinn áhuga á rafmagni og fékk forvitni minni svalað. Við kunningi minn vorum í svipuðum sporum gagnvart portúgalska rithöfundinum Antonio Mora. Hann vildi fræða okkur, ekki um rafmagn, heldur um portúgalskar bókmenntir sem hann taldi vera þær merkustu í Evrópu. Þarna sátum við í leðursófa í koníaksstofunni á Hótel Holti og hlustuðum á fyrirlestur um portúgölsk skáld. Hafið þið lesið Mildan úða? Þekkið þið Antonio Lobo Antunes ? Við vorum orðnir drukknir, setningarnar urðu óljósar, eins og orðin hefðu bæði blotnað og frosið í mildu septemberfrosti fyrr um daginn, breyst í gler eða nálar sem við kunningi minn gátum ekki móttekið. Háir veggir höfðu risið kringum vitund okkar. Andlit okkar urðu löng. Við settum upp eitt andlit sem náði yfir okkur báða. Við fylltum leikhúsið með einu löngu andliti og Antonio Mora leit út í salinn. Vitið þið eitthvað um Eça de Queiróz? Vitið þið eitthvað um Camilo Pessanha?

„Gangi þér vel,“ sögðum við þegar við kvöddum Antonio Mora í Leifsstöð daginn eftir og hann sagði: „Gangi ykkur vel.“ Við horfðum á eftir honum þar sem hann gekk í átt að röðinni við innskráningarborðin með litla flugfreyjutösku í eftirdragi. Þegar hann bættist í röðina var eins og hann hyrfi samstundis í þoku.

(160-161)

Fleira eftir sama höfund

Tilbrigði við Tígrisdýr eftir Frans Kafka

Lesa meira

Fáein orð um fjórar skemmdar sítrónur, segulbandsspólur og svefnlausar nætur

Lesa meira

Saga Bræðraborgarstígsins / símskeyti

Lesa meira

Hér og nú 1999: Ísbjörn í morgunsárið

Lesa meira

Innkaupaferð, úlfur og vindlakassi

Lesa meira

39 þrep á leið til glötunar

Lesa meira

Engill tímans: til minningar um Matthías Viðar Sæmundsson

Lesa meira

Skáld um skáld

Lesa meira