Beint í efni

Þór - Í Heljargreipum

Þór - Í Heljargreipum
Höfundur
Friðrik Erlingsson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Barnabækur

Friðrik Erlingsson skrásetti.

Af bókarkápu:

Þór er ungur og ofursterkur járnsmiður í Mannheimum sem veit ekki að hann er sonur Óðins, konungs guðanna. Þegar hann fær í hendur Mjölni, öflugasta vopn veraldar, hefst æsileg atburðarás. Þór berst ásamt Eddu vinkonu sinni við jötna og sjálfa Hel, drottningu Undirheima, en þessi illu öfl hyggjast steypa konungi guðanna af stóli. Á meðan orrustan um Ásgarð stendur sem hæst verður Þór að velja milli þess að bjarga lífi vinar eða ríki föður síns.


Úr Þór - Í Heljargreipum:

Smiðjan var full af myrkri, hnausþykku og funheitu kolniðamyrkri. Af og til heyrðust lágir brestir í glæðunum, sem voru huldar öskju í eldstæðinu. Annars var þögnin jafn þykk og heit og myrkrið - þangað til hurðinni var skyndilega sparkað upp . Hún þeyttist til hliðar og slóst í vegginn með háum hvelli svo hjarirnar gnístu ryðguðum tönnunum. Í dyrunum var stórvaxin skuggamynd af sterklegum ungum manni með breiðar herðar og þykka handleggi. Hann steig inn á gólfið og skellti hurðinni svo fast á eftir sér að hjarirnar vældu hátt um leið og hún small að stöfum.

Ungi maðurinn gekk rakleiðis að eldstæðinu og hirti ekki um að nota físibelginn heldur blés hraustlega í glæðurnar. Eldurinn blossaði og funheit birtan féll á andlit hans; sterklega höku og geislandi græn augu undir rauðum hártoppi.

Smiðjan lýstist upp svo þar mátti sjá skóflu í kolatunnu og eldtangir sem héngu niður úr loftinu. Þykkt leðurbelti hékk á vegg við hliðina á skeifum af öllum stærðum, en á voldugum steðja lágu járnklæddir leðurhanskar.

Ungi maðurinn tók beltið af veggnum, spennti það þétt um mittið og klæddi sig í hanskana. Hann stakk hendinni á kaf í brennandi kolin og dró út langt og mikið sverð, svo glóandi heitt að neistarnir hrukku í allar áttir. Hann lagði sverðið á steðjann, greip hamar í hönd sér og barði af öllum kröftum svo klingjandi hljómurinn glumdi í smiðjuveggjunum.

Þegar hann hafði hamrað sverðið um stund lagði hann það aftur í kolin og beið þess að það yrði rauðglóandi á nýjan leik. Þá dró hann það út og stakk því á bólakaf í vatnsfötu úr tré. Vatnið bullaði og sauð á meðan sverðið kólnaði og gufan fyllti smiðjuna um stund. Þegar hann lyfti því upp var stálið skínandi blátt og eggin hvöss. Hann brosti ánægður og virti sverðið vandlega fyrir sér.

Fullkomið, hugsaði hann. Fullkomið vopn fyrir alvöru stríðsmann. Þvílíkar dáðir sem ég gæti drýgt með þessu vopni. Þvílíkar hetjudáðir!

Hann sveiflaði sverðinu, sneri sér í hringi og hjó út í loftið og ímyndaðir óvinir hrönnuðust í kringum hann.

Árás! hvæsti hann. Ha! Náði þér! Gættu þín! Jötnar! Ó, nei! Hvar? Fyrir aftan þig! Hann sneri sér snöggt, lyfti sverðinu hátt til höggs og hjó því af öllu afli niður í gólf - eða réttara sagt niður í gegnum miðjan steðjann. Áður en hann vissi af hafði sverðið klofið steðjann í tvo hluta, líkt og þegar heitur hnífur rennur í gegnum kalt smjör, og helmingjarnir tveir féllu hvor í sína áttina með þungum dynk niður á moldargólfið. Ánægjan sem geislað hafði af andliti hans þurrkaðist út og brosið breyttist í kvíðagrettu.

Þá heyrðist skerandi hvell kvenrödd hrópa fyrir utan:

Þór! Hvað ertu að gera?

Ekkert mamma! svaraði Þór og horfði áhyggjufullur á klofinn steðjann.

Drífðu þig út, drengur! Það er komin afgreiðsla!

Þór beit í vörina og horfði áhyggjufullur í kringum sig.

(7-9)

Fleira eftir sama höfund

Benjamín dúfa

Lesa meira

Bróðir Lúsifer

Lesa meira

Litla lirfan ljóta

Lesa meira

Litla lirfan ljóta

Lesa meira

Vetrareldur

Lesa meira

Vetrareldur

Lesa meira

Afi minn í sveitinni

Lesa meira

Benjamin due

Lesa meira

Benjamín dúfa

Lesa meira