Beint í efni

Þjóð bjarnarins mikla : skáldsaga um börn Jarðar

Þjóð bjarnarins mikla : skáldsaga um börn Jarðar
Höfundur
Jean M. Auel
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1986
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan The Clan of the Cave Bear eftir Jean M. Auel í þýðingu Fríðu Á. Sigurðardóttur.

Endurútgefin: Vaka-Helgafell, 2002.

Úr Þjóð bjarnarins mikla : Skáldsaga um börn jarðar

Þegar konan kom fyrst auga á dýrið sem mennirnir höfðu skilið eftir varð hún mjög undrandi því dýrið virtist ekki vera með neinn feld. En þegar hún kom nær greip hún andann á lofti. Hún steig eitt skref aftur á bak og greip um litla skinnpokann sem hún bar um hálsinn – ósjálfráð hreyfing til að verjast óþekktum öndum. Gegnum leðrið fór hún fingrum um smáhlutina í pokanum, verndargripina sína, og bað þá um vernd um leið og hún hallaði sér áfram til að líta nánar á þetta. Hún hikaði við að ganga nær, en hún trúði ekki almennilega sínum eigin augum.
 En augu hennar höfðu ekki brugðist henni. Það var ekki dýr sem dregið hafði að sér hræfuglana. Það var barn, grindhorað barn, mjög furðulegt í útliti!
Konan leit í kringum sig til að sjá hvort einhver önnur skelfileg undur væru þarna í nánd, og tók síðan að mjaka sér fram hjá meðvitundarlausu barninu. En þá heyrði hún stunur. Konan nam staðar, hún gleymdi óttanum, kraup niður hjá telpunni og ýtti aðeins við henni. Telpan sneri sér við og þegar konan sá sárin eftir ljónsklærnar á bólgnum fætinum tók hún fram oturskinnspokann og opnaði hann.
Maðurinn sem gekk fremstur leit um öxl og sá konuna krjúpa hjá barninu. Hann gekk til þeirra.
Komdu Iza! skipaði hann. Það eru spor hér eftir hellisljón. Flýttu þér!
Þetta er barn, Brun. Sært, en ekki dáið, svaraði hún.
Brun leit á horaða telpuna með háa ennið, litla nefið og þetta undarlega flata andlit.  Ekki úr Ættinni, sagði höfðinginn stuttur í spuna og snéri sér frá og ætlaði að halda áfram.
Brun, þetta er barn. Það er sært. Það deyr ef við skiljum það hér eftir. Augu Izu voru biðjandi þegar hún gerði táknin með höndunum.

(s. 19-20)

Fleira eftir sama höfund