Beint í efni

Þegar gestur fór

Þegar gestur fór
Höfundur
Helgi Ingólfsson
Útgefandi
Óðinsauga
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Þegar Gestur fór er söguleg skáldsaga með sakamálaívafi, sjálfstætt framhald verðlaunasögunnar Þegar kóngur kom, sem hlaut Blóðdropann, verðlaun Hins íslenska glæpafélags, árið 2010.

Nýja sagan gerist 15 árum síðar og margar persónur eru þær sömu sem í fyrri bókinni, orðnar eldri og reyndari, en sumar hafa horfið af sjónarsviði og nýjar rutt sér til rúms.

Úr bókinni:

„Skjótum upp fána!“

„Skært lúðrar hljóma!“

„Skundum á Þingvöll og treystum vort heit!“

Þriggja ára gömul vísuorðin áttu sjaldan betur við en nú. Skárra að kyrkja þennan brag Steingríms og Helga snikkara frá síðasta Þingvallarfundi en að baula þann ósyngjandi bræðing, sem Gröndal hafði klambrað saman fyrir væntanlegan fund, eflaust haugfullur. Þannig hugsaði hersing Þingvallarfara, sem lagði af stað yfir steinbrúna upp Bankastræti, þyrlandi mekki, hrópandi slagorð sem drukknuðu í hófataki, sveiflandi svipusköftum, veifandi pyttlum – þótt svo ætti að heita, fyrir áhrif góðtemplara, að fundurinn yrði alkahólfrír. Eingöngu hluti hópsins voru kjörnir fulltrúar, en aðrir voru alþingismenn, prestar, prófastar, kaupmenn, faktorar, prestaskólanemar, stúdentar, konur í söðlum og yfirhöfuð allir sem fengu útvegað sér truntu. Umhverfis stóðið léku hundar við hverja sína kló, hlaupandi, geltandi, krafstandi upp ryki og mígandi utan í steingarða. Framarlega í lestinni riðu þeir norðlensku alþingismenn, sem átt höfðu upptökin að boðun fundarins: Benedikt sýslumaður Sveinsson, sem sumir sögð verðugan arftaka Jóns forseta í þjóðfrelsisbaráttunni, en aðrir álitu drykkfelldan og dyntóttan flautaþyril; þingeyski héraðshöfðinginn Jón Sigurðsson á Gautlöndum, af flestum uppnefndur Gauti.

Á leið upp Skólavörðustíginn reið Björn ritstjóri Jónsson upp að hlið Benedikts Sveinssonar. „Finnst yður við hæfi, herra sýslumaður,“ mælti hann snuprandi, „að hefja ferðina á glaðningi úr hnakktöskunni?“

„Skárra en ekkert, herra ritstjóri,“ sönglaði Benedikt með galsafullum skræk. Hann var lágur og kvikur, þótt komin væri á sjötugsaldur, klæddur slagkápu, nauðrakaður nema hvað rytjulegur hárlagður óx undir hökunni. Hann hafði þann undarlega sið að tóna tilsvör sín, þegar hann fékk sér í tána, og gátu menn af því metið ölvunarástand hans. „Mér skilst að það sé fyrir yðar tilstilli sem æðstaprests vínlausra að ekki verði í boði göróttar veitingar í tjöldum núna, ólíkt því sem hefur verið á fyrri Þingvallarfundum?“

„Hnífrétt,“ sagði Björn þurrlega. Hann var myndarlegur maður, en alvörugefinn og þungbrýndur, strýhærður og blekhærður, með óhemju þétt alskegg. „Drukkin þjóð verður seint sjálfstæð.“

„Ódrukkin þjóð verður seint skemmtileg, herra ritstjóri. Þú hefur verið í búri Dana og ættir að vita það. Nægur tími til að láta renna af sér, þegar á Þingvöll kemur.“ Með því söngli smellti Benedikt svipunni og knúði hestinn úr spori, svo stuttur að hann stóð frekar í ístaðinu í forugum hnéháum leðurstígvélunum en að hann sæti; frakkalöfin flöksuðust aftur um lendar hstsins eins og klofið stél. Hann spretti úr spori uns hann náði sveitunga sínum, Jóni Sigurðssyni á Gautlöndum.

(86-7)

Fleira eftir sama höfund

Frjálsar hendur: kennarahandbók

Lesa meira

Sandkorn úr stundaglasi eilífðarinnar

Lesa meira

Þægir strákar

Lesa meira

Enn af kerskni og heimsósóma : ásamt barnasögum fyrir fullorðna

Lesa meira

Kver um kerskni og heimsósóma

Lesa meira

Blá nótt fram í rauða bítið

Lesa meira

Andsælis á auðnuhjólinu

Lesa meira

Eldurinn og andinn

Lesa meira

Greinilega kóngi að kenna

Lesa meira