Beint í efni

Sandkorn úr stundaglasi eilífðarinnar

Sandkorn úr stundaglasi eilífðarinnar
Höfundur
Helgi Ingólfsson
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:



Í stundaglasi eilífðarinnar streyma sandkornin í sífellu, hver arða sem einstakt atvik.



Sum snerta örlög mannskepnunnar og þá standa hin fleiri og stærri mannkynssöguna, en þau færri og smærri Íslandssöguna. Í kveri þessu má finna nokkur korn úr fortíð, nútíð og framtíð, þar sem sjónum er beint að atvikum úr sögunni í smæsta og stærsta skilningi, goðsögulegum sem mannkynsögulegum.



... villa! Forritið endurræsir sig ...



Úr bókinni:



Svo niðursokkinn var hugsuðurinn í þanka sína að hann tók fyrst eftir rómverska fótgönguliðanum, þegar skuggi hins síðarnefnda féll á hringina í sandinum.



Sequere me,“ skipaði hermaðurinn, á latínu, eins og við var að búast. Hann hafði sín fyrirmæli (eftir langri boðleið; hans primus pilus hafði fengið þau frá hundraðshöfðingjanum, sem höfðu borist þau frá legáta, sem fékk þau frá Marcellusi) um að smala saman handsömuðum. Tignarfangar áttu að fara í sérstakan flokk, en síst renndi soldátann í grun um að þessi úfni og ótótlegi öldungur í klepraða kyrtlinum tilheyrði aðli borgarinnar. „Fylgdu mér.“



„Leyfðu mér að hugsa í friði,“ svaraði Arkímedes viðbrigðinn á skollalatínu sinni án þess að líta upp. Hann fann að hann var svo nærri lausninni, svo nærri lausninni.



„Ég sagði þér að koma með mér, skröggur.“ Hermaðurinn lagði hramminn á öxl Arkímedesar, sem vatt snúðugt upp á sig, án þess þó að missa sjónar á hringjunum í sandinum. Þegar bolvindan dugði ekki, sló hann með reyrstafnum á krumluna, enn niðursokkinn. Hermaðurinn dró til sín höndina með undrunarópi.



„Snertu mig ekki.“ Arkímedes sá að hermaðurinn steig niður, svo caliga hans snerti jaðar ysta hringsins, og slæmdi einnig stafnum í átt að uppreyrðum skónum. „Og ekki hringina mína heldur.“



Eitt stundarkorn starði dátinn í forundran yfir óskammfeilninni, en lyfti síðan fæti og spyrnti í sandinn, sem þyrlaðist í skýi, svo að myndaðist geil. „Segðu mér ekki hvað mér ber eða ber ekki að gera, betlarinn þinn,“ urraði hann illilega.



Noli turbare circulos meos“ endurtók stærðfræðingurinn og beygði sig betur fram, svo brakaði í beinum, líkt og hann ætlaði til hins ýtrasta að verja ... hvað? Óreglulega hringi dregna í sand? Nei, ævistarf sitt. Og hann fann að hann var svo nærri lausninni, svo nærri. „Hróflaðu ekki við hringjunum mínum.“



Hermaðurinn, dolfallinn í fyrstu og síðan heiftugur, var staðráðinn í að veita þessum frakka durti ráðningu og karlhróið virtist vita það, eins og það beygði sig og teygði fram álkuna. Arkímedes tók vart eftir mjúku hljóðinu, þegar olíuborið stálið var dregið úr nautshúðarslíðrinu. Örskammri stundu síðar heyrði hann snöggan hvin berast hratt að eyranu og eitt augnablik – eitt ómælisbrot af tímanum, minna en minnsta sandkorn í öllum hugsanlegum veröldum samanlagt – grúfði höfuðið sig ekki lengur til jarðar, heldur horfði á einhvern undraverðan máta upp í himinblámann. Á því augnabliki kom hann auga á lausnina. Síðan leystist veröldin upp.



(41-2)


Fleira eftir sama höfund

Frjálsar hendur: kennarahandbók

Lesa meira

Þægir strákar

Lesa meira

Þegar gestur fór

Lesa meira

Enn af kerskni og heimsósóma : ásamt barnasögum fyrir fullorðna

Lesa meira

Kver um kerskni og heimsósóma

Lesa meira

Blá nótt fram í rauða bítið

Lesa meira

Andsælis á auðnuhjólinu

Lesa meira

Eldurinn og andinn

Lesa meira

Greinilega kóngi að kenna

Lesa meira