Beint í efni

Sagan af Daníel III : Á bárunnar bláu slóð

Sagan af Daníel III : Á bárunnar bláu slóð
Höfundur
Guðjón Sveinsson
Útgefandi
Mánabergsútgáfan
Staður
Ár
1997
Flokkur
Skáldsögur

Úr Sagan af Daníel III : Á bárunnar bláu slóð:

Tundurdufl hafði sprungið utan undir háum klettum tangans. Þar var aðdýpi. Það hafði borgið lífi Benna, að hann hafði verið staddur niðri í djúpum skorningi sem skar tangann þveran rétt ofan kofans. Sprengjubrot höfðu samt náð að tæta af honum hægri höndina. Hann hafði einnig misst sjón á báðum augum. Nú lék Benni ekki skrýtna karla, tók ekki þátt í vegagerð eða ránsferð í kartöflugarða. Síðustu árin hafði Daníel lítið fylgst með líðan hans. Hann hafði fjarlægst. Kom ekki lengur með strandferðaskipinu, galvaskur, háðskur, neyðarlegur, höfðinglegur með fulla vasa af karamellum. - Hann er að læra blindraletur. Þá getur hann lesið bækur eins og við, sagði Nonni. - Nei, ekki eins og við. Aldrei, svaraði Daníel. - Þ-Það er ýmislegt gert fyrir þetta fólk, ef það gefst ekki upp. Benni mun aldrei gefast upp. Hann er að læra á harmóníku, píanó og gítar. Ekki gerum við það. Kannski hafði Nonni rétt fyrir sér, en Daníel var ekki sáttur við þessa ráðstöfun almættisins. - Það geta enn sprungið tundurdufl. Enginn er óhultur, sagði Daníel eftir stundar þögn. Nonni kinkaði kolli. - Það sprakk eitt í trolli hjá togara. Það slasaðist enginn, en togarinn sökk, sagði hann. - Menn verða að berjast, sagði Daníel. - Berjast? - Já, gegn öllum Hitlerum. - Hann er dauður. - Hann deyr aldrei, ef menn berjast ekki. Vilt þú ekki berjast? Daníel horfði opnum, gráum augum á Nonna og hann greindi í augnaráðinu einhvern trylling, eitthvert hatur. - Auðvitað vilja allir frið ... - Þú vilt ekki berjast? - Láttu ekki svona, Danni. Við viljum lifa í friði, líka Benni sem hlotið hefur örkuml. Hann kemur vonandi bráðum – til að skemmta okkur. Við þessi orð var sem slokknaði á Daníel. Hann laut höfði og táði mosa milli fingranna. Það var tekið að bregða birtu. Ljósin á Hornvitanum greindust vel, þrjú leiftur á ellefu sekúndna bili. - Hann er víst ótrúlega duglegur, já, og líkur sjálfum sér, sagði Nonni lágt. Þeir risu á fætur og mæltu fátt það sem eftir var ferðar. Á leitinu skildu leiðir. Daníel hélt inn og niður mýrina, leiðina sem hann hafði farið, þegar hann gekk í skólann að Hvammi. Hann reyndi að ganga blindandi. „Hann er víst ótrúlega duglegur, já, og líkur sjálfum sér.“ Daníel fannst sem jörðinni væri kippt undan fótunum, bar fyrir sig hendurnar og opnaði augun. Ótrúlega líkur sjálfum sér. Segði kannski brandara. Hvernig gæti hann það? Til viðbótar blindunni, vantaði hann hægri höndina. Blindan var samt verri, hlaut að vera það. Það versta er gat hent. „Hann er víst ótrúlega duglegur, já, og líkur sjálfum sér.“ Daníel lokaði augunum á ný. Missti fljótt áttir. Reikaði í spori, þar til hann féll endilangur í leirkeldu. Er hann kom heim, horfði frændi á hann fullur undrunar – en spurði einskis.

(s. 58-59)

Fleira eftir sama höfund

Brot úr dagbók sjómanns: Skáldsöguleg skýrsla

Lesa meira

Ógnir Einidals

Lesa meira

Kvöldstund með pabba - Lítil saga handa börnum

Lesa meira

Saga af Frans litla fiskastrák

Lesa meira

Sagan af Daníel I : Undir bláu augliti eilífðarinnar

Lesa meira

Sagan af Daníel II : Vetur og vorbláar nætur

Lesa meira

Sagan af Daníel IV : Út úr blánóttinni

Lesa meira

Kettlingurinn Fríða fantasía og rauða húsið í Reyniviðargarðinum

Lesa meira

Með eitur í blóðinu

Lesa meira