Beint í efni

Ritgerð mín um sársaukann

Ritgerð mín um sársaukann
Höfundur
Eiríkur Guðmundsson
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Ritgerð mín um sársaukann er fimmta skáldsaga Eiríks.

Úr bókinni

   Lífið ein löng sumarnótt og það vita allir að sumrin í Reykjavík taka sinn toll og ekkert gat stöðvað okkur og enginn hafði áhyggjur af neinu, í mesta lagi næstu nótt, og þótt hún yrði mögulega löng, eins og næturnar á Íslandi eru langar, eru þær samt ekki svo langar að það sé nokkur ástæða til að hafa of miklar áhyggjur af þeim, þær koma og fara, þær líða hjá, þótt þær geti orðið langar. Svo eru þær liðnar, og eitthvað nýtt tekur við, en það er ekki endilega neitt betra, ég hef þá ferðast milli rökkra og sveimað eins og áttavilltur glópur inn í þessa tíma, og mér er satt að segja oft skapi næst að mæna upp í himininn og biðja um grið, undir loftglugga sem er glugginn í hvítri hvelfingunni hérna niðri, hún lagði á mig galdur, konan sem ég hef ekki komist undan, en ég greini betur frá því á þessum blöðum sem ég kalla Ritgerð mína um sársaukann. Og ef ekki Ritgerð mína um sársaukann þá Óð minn til melankólíunnar. Og ef ekki Óð minn til melankólíunnar þá Skýjaborgir á sjóndeildarhringnum.

   Félagar mínir, sem um síðir urðu ýmist hæstaréttardómarar, bankamenn eða tannlæknar, héldu þessum ferðum áfram löngu eftir að þeir voru komnir yfir lögaldur. Þeir vildu halda lífi í ævintýri sem þeir höfðu fyrir löngu glatað. Þeir vildu, eins og við öll, væntanlega, halda lífi í hlálegu ævintýrinu og breyta sér um hverja helgi í áttavillta guði á húsþökunum yfir miðri Reykjavíkurborg. Allir vildu slútta hinni gömlu öld með stæl og hefja hina nýju af miklum krafti. Ég gaf ekkert fyrir það. Ég var annars staðar, og er þar enn. Á að minnsta kosti tveimur eða þremur stöðum samtímis, það er mín heilaga blessun, mín dýrðlega bölvun. Þegar ég er þar, þá er ég hér, þegar ég er hér, þá er ég þar.

   Þetta tiltekna kvöld varð ég viðskila við félaga mína, en rataði beinustu leið inn á Hótel Borg. Ég hafði ekki ætlað þangað. Fyrr um daginn hafði ég eins og ævinlega síðdegis á laugardögum drukkið tvö eða þrjú sérríglös, rautt eða hvítt, með Söru frænku minni og Aþaneusi frænda mínum í turninum við Skólavörðustíg.

   Einhverra hluta vegna nam ég staðar fyrir framan miðjan spegilinn, ekki til að laga bindishnút, ég var aldrei með slaufu, slaufur eru fyrir skoffín, eða hárgreiðsluna, það var allt í lagi með hana, hún var óaðfinnanleg, heldur til þess að athuga hvort það gæti verið að mín biði einhvers staðar draumur, skíðlogandi fallegur draumur, líkt og úr gamalli riddarasögu, himinblátt og heillandi undraland, annar heimur, skóreimarnar voru á réttum stað, en ég gerði þetta samt, til að máta við heiminn og sjálfan mig, áður en ég héldi inn í mannmergðina en það var alls ekki eins og mig langaði þangað.

   Þá kom ég auga á hana, hún stóð á bakvið mig, en augu okkar mættust í speglinum. Næstu helgar áttum við stefnumót í þessum sama spegli, og þegar ég yfirgaf þann spegil var ég illa leikinn og vissi ekki hvar ég var staddur.

   Við kysstumst þar, í miðjum spegli, og hurfum inn í nýjar nætur og nýja framtíð, og allir vildu ljúka þessari gömlu öld með stæl en þó umfram allt að heilsa nýrri. Og við kysstumst í speglinum.

   Þannig liðu mánuðir og þannig liðu ár.

   Við höfðum þá orðið eftir í speglinum.

   Og það er þá eins og þegar ankeri er varpað í djúpan sjó á lygnum firði, í kjölfarið fylgir mikil kyrrð og ekkert hreyfist.

(bls. 26-27) 

Fleira eftir sama höfund

Tilbrigði við Tígrisdýr eftir Frans Kafka

Lesa meira

Fáein orð um fjórar skemmdar sítrónur, segulbandsspólur og svefnlausar nætur

Lesa meira

Saga Bræðraborgarstígsins / símskeyti

Lesa meira

Hér og nú 1999: Ísbjörn í morgunsárið

Lesa meira

Innkaupaferð, úlfur og vindlakassi

Lesa meira

39 þrep á leið til glötunar

Lesa meira

Engill tímans: til minningar um Matthías Viðar Sæmundsson

Lesa meira

Skáld um skáld

Lesa meira