Beint í efni

Nonni og Selma: Fjör í fríinu

Nonni og Selma: Fjör í fríinu
Höfundur
Brynhildur Þórarinsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Barnabækur

Önnur bókin um þau Nonna og Selmu. Sú fyrsta var Nonni og Selma: Fjör í fyrsta bekk (2007).

Af bókarkápu:

Fyrsti skólavetur Nonna og Selmu er á enda og sumarið blasir við. Það var fjör hjá þeim í fyrsta bekk en það verður enn meira fjör í fríinu. Þau ætla að gera allt sem stórir skólakrakkar taka sér fyrir hendur á sumrin: byggja kofa og kassabíl, gera dálítið af prakkarastrikum og lenda í eins mörgum ævintýrum og þau mögulega geta.

Úr Nonni og Selma: Fjör í fríinu:

Afi var svo glaður að komast í smíðavinnu að hann brosti út að eyrum bak við skeggið.
Þið verðið handlangarar, sagði hann við krakkana og klappaði á kollinn á þeim.
Nonni og Selma litu hvort á annað og svo á hendurnar á sér. Hvað er eru eiginlega hand-langarar? spurðu þau hissa.
Nú, auðvitað aðstoðarsmiðir, svaraði afi og opnaði kassa af nöglum. Þið réttið mér verkfæri og hjálpið mér að smíða.
Það leist krökkunum vel á.
Nú þarf ég skóflu, sagði afi og stikaði um garðinn.
Selma hljóp heim til sín og sótti stóra skóflu. Afi gróf fjórar djúpar holur á miðjum blettinum og renndi sverum rörbútum ofan í þær. Síðan stakk hann löngum spýtum ofan í rörin. Hann lagði hallamál á spýturnar og passaði að þær væru alveg beinar.
Ég þarf vatn og stóra fötu, sagði afi handlangarana.
Nonni skrúfaði frá garðslöngunni og Selma sótti skúringafötu. Afi tók fötuna og hellti sandi og sementi í hana. Svo lét hann buna úr garðslöngunni ofan í fötuna og hrærði vel í með skóflunni.
Hvað ertu að búa til? spurði Nonni og gægðist ofan í fötuna. Gumsið leit út eins og þykkur hafragrautur.
Þetta er steypa, karlinn minn, sagði afi. Hann tók væna slettu úr fötunni og leyfði krökkunum að pota í hana. Við þurfum að festa kofann almennilega svo hann fjúki ekki burt.
Hann lét krakkana halda við stoðirnar og mokaði steypunni meðfram þeim þar til hún sullaðist upp á grasið.
Að því búnu þurfti að saga efniviðinn í veggina. Handlangararnir mældu fjalirnar með tommustokk og afi sagaði þær í rétta lengd.
Hananú, sagði afi þegar hann hafði sagað síðustu spýtuna. Nú tökum við kaffipásu.
Afi bar veitingar á borð úti í garði. Hann hellti örfáum dropum af kaffi í tvo bolla, fyllti þá af mjólk og sturtaði sykri út í. Síðan rétti hann krökkunum bollana og skipaði þeim að drekka.
Nonni og Selma fitjuðu upp á nefið. Þau höfðu aldrei drukkið kaffi áður og langaði ekkert til að smakka það.
Nonni dreypti varlega á kaffinu. Það var ekki eins hræðilega vont og hann bjóst við en samt alveg ferlegt.
Selma var ekki eins huguð. Hún rétt þefaði af bollanum og hryllti sig. Það lyktar eins og Kristín skólastjóri, hvíslaði hún.
Nonni gretti sig og kinkaði kolli. Þegar afi leit undan skvettu þau bæði úr bollunum aftur fyrir sig. Hvellt mjálm kvað við úr blómabeðinu og Lói stökk bálreiður yfir túnið.
En skrýtið, sagði afi hissa. Mér fannst vera kaffilykt af kettinum.

(s. 23-25)

Fleira eftir sama höfund

Óskabarn : bókin um Jón Sigurðsson

Lesa meira

Blávatnsormurinn

Lesa meira

Áfram Óli

Lesa meira

The Saga of Njáll

Lesa meira

Af Artúri konungi, Gunnari á Hlíðarenda og Fróða Bagga: Fornsagnamatreiðsla fyrir börn

Lesa meira

Allt í lagi Reykjavík

Lesa meira

Af lopakörlum og prjónakerlingum

Lesa meira

Byrgir söguþekkingin sýn? Sýning á bronsstyttum þriðja ríkisins

Lesa meira