Beint í efni

Lygasaga

Lygasaga
Höfundur
Linda Vilhjálmsdóttir
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Þetta er sönn saga um lygi. Hún segir frá lífi í skugga ótta, þráhyggju og hægslítandi drykkju sem bætir blekkingu ofan á blekkingu þangað til lífið er orðið ein samfelld lygasaga.

Úr Lygasögu:

Ég þekki flesta barþjóna í bænum með nafni. Ég þykist vita ýmislegt um þá. Ég heilsa þeim kumpánlega þegar ég sest við barinn. Ég heilsa þeim líka á götu. Ég þekki íslenska barþjóna tuttugu og fimm ár aftur í tímann. Ég heilsa þeim líka á götu. Ég þekki barþjóna í París, í Berlín, í Bonn, í Kaupmannahöfn, í Stokkhólmi og í Helsinki. Ég þekki barþjóna í Riccione á Ítalíu, í Jonzac í Frakklandi, í Krefeld í Þýskalandi, í Luzern í Sviss, í Nässjö í Svíþjóð, í Tampere í Finnlandi, í Colchester á Englandi, í Þórshöfn í Færeyjum og á Kúbu. Ég þekki barþjóna alls staðar þar sem ég hef drepið niður fæti síðustu tuttugu og fimm árin eða réttara sagt þá þykist ég þekkja þá. Þeir þekkja mig. Þeir vita að ég drekk aldrei eitt glas í einu.

Barþjónar eru þægilegt fólk að umgangast. Samskiptin ganga snurðulaust fyrir sig. Maður heilsar og pantar og segir allt gott. Barþjónninn segir allt ágætt og þurrkar af borðinu og hellir í glasið. Maður borgar og snýr sér að drykkjunni. Barþjónninn snýr sér að öðru en hefur samt auga með manni. Þegar líður á árin lærir maður að seinna á kvöldin er auðveldara að panta drykkina án þess að tala. Maður verður ótrúlega fær í því að ná augnsambandi við barþjóna í hvaða þvögu sem er og nikka svo aðeins eða lyfta glasinu til merkis um að maður vilji annan. Ef maður er á ókunnum bar þá kallar maður eitthvert hlutlaust nafn eins og Kalli eða Karl hátt og skýrt gegnum troðninginn og lyftir svo glasinu á loft þegar barþjónninn setur upp svipinn: Áttu við mig? Þegar barþjónninn hefur leiðrétt nafnaruglinginn er maður kominn í varanlegt samband. Þetta bragð bregst ekki. Síðan kemur sá tími að maður kýs að fara um barina þegjandi og segja ekki neitt. Maður horfir óákveðinn á barþjóninn og lætur hann um það hversu mörg staup er ráðlegt að drekka með bjórnum.

Barþjónar gera engar kröfur til manns. Ef maður er sæmilega kurteis að upplagi þá er það nóg. Þeir búast ekki við neinu af manni. Binda engar vonir við mann. Maður þarf ekki að tala við barþjóna. Maður er laus við þá kvöð. Maður getur setið og drukkið og þagað tímunum saman þótt barþjónninn standi beint fyrir framan mann. Barþjónar vita sem er að maður reiknar ósjálfrátt með því að þeir séu í blakkáti ef maður er sjálfur í blakkáti. Þeir vita að það er óþarfi að ræða það frekar. Það sama gildir um skandala. Ef maður er settur í straff þá er vonlaust að ætla að ræða það við barþjóninn. Öll svoleiðis leiðindi heyra undir dyravörðinn. Og það liggur í augum uppi að maður rökræðir ekki við dyraverði. Þeir loka bara á mann. Maður rífur kjaft við dyraverði. Það er eina leiðin til að ná sambandi við þá og halda dyrunum opnum í svolitla stund.

(s. 24-26)

Fleira eftir sama höfund

Alle schönen Worte

Lesa meira
humm

humm

ég smeygi mér / inn í ryðrauðan ljósgeislann
Lesa meira

Klakabörnin

Lesa meira

Nulla mors sine causa

Lesa meira

Ljóð í Ich hörte die Farbe blau - Poesi aus Island

Lesa meira

Ljóð í Treasures of Icelandic Verse

Lesa meira

Hótel Hekla

Lesa meira

Ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira

Kyrralífsmyndir

Lesa meira