Beint í efni

Ljóðveldið Ísland

Ljóðveldið Ísland
Höfundur
Sindri Freysson
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Ljóð

Bókin geymir ljóðabálk þar sem Sindri yrkir um sögu lýðveldisins frá stofnun þess 1944 fram yfir efnahagshrunið 2009.

Af bókarkápu:

Á hráslagalegum júnídegi árið 1944 komu nokkrir frakkaklæddir menn saman á Þingvöllum og skrifuðu undir stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þeir voru hundblautir og krókloppnir en afskaplega bjartsýnir á framtíð lands og þjóðar.

Aðeins 65 árum síðar berst íslenska þjóðin á mörgum vígstöðvum og lifir í fullkominni óvissu um eigin nútíð, hvað þá framtíð. Úr rústum hins alræmda íslenska efnahagsundurs rísa svartir skuggar, hoknir og hóstandi, og streða við að þurrka sótið úr augunum. Þeir virða fyrir sér skaðbrunna jörðina og hyldjúpa sprengigígana og reyna að skilja orsakir hamfaranna. Í logandi helvítinu rekast þeir á sviðið handrit sem heitir Ljóðveldið Ísland. Geymir það svörin? Er hægt að botna í Íslandi dagsins í dag með því að hefja förina árið 1944 og þeysast til nútímans?

Úr Ljóðveldinu Ísland:

1947

Af og til dregur djöfullinn
sálir úr djúpum Heklu
og sýnir þeim
að verri staður er til
Tindurinn lyftist
og dynkirnir óma
um landið endilangt
Hún spúði eldi og eimyrju
breytti fögrum hlíðum
í koldimma auðn
Andliti mínu í næturgrímu
Togarinn Ingólfur Arnarson
sigldi biksvartan sjóinn
með blikandi ljósum
um hábjartan dag
Til heiðurs drottningu
eyðileggingarinnar
var fyrsta millilandaflugvél lýðveldisins
(keypt á víxlum því gjaldeyrir var þrotinn)
nefnd Hekla
Flestir flugu þó
í huganum

2007 (brot)

Eftir að hafa
hlýjað sér
við hitann af ísklumpi
ásamt bankamönnum
í hong kong
étið gull og
kúkað gulli
gekk rustafengni risinn
berseksgang
í borgarnefnu á norðurhjara
Dóttir hans
resessan staulaðist
skelfd og döpur
um borgina til að sjá
skemmdarverk föður síns

Fleira eftir sama höfund

Fljótið sofandi konur

Lesa meira

Ljóð í 25 poètes islandais d´aujourd´hui

Lesa meira

Smásögur og ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira

Dóttir mæðra minna

Lesa meira

Skuggaveiði

Lesa meira

Góðir farþegar

Lesa meira

Flóttinn

Lesa meira

(M)orð og myndir

Lesa meira

Augun í bænum

Lesa meira