Beint í efni

Kóperníka

Kóperníka
Höfundur
Sölvi Björn Sigurðsson
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

 

Kaupmannahöfn 1888. Raðmorðingi gengur laus og sýfilisfaraldur geisar. Börn í borginni hverfa unnvörpum. Kóperníkus, íslenskur unglæknir á Konunglega spítalanum, er rekinn frá störfum sínum og fært það í hendur að rannsaka lát besta vinar síns. En er nokkur niðurstaða í augsýn?

Kóperníkus einsetur sér að komast til botns í málinu og fylgist grannt með háttum samstarfsmanna sinna á spítalanum, sem hann grunar að séu ekki allir þar sem þeir eru séðir. Lík eru grafin upp úr Assistens-kirkjugarði eftir því sem þau hrannast upp á krufningaborðinu, og svo er ástin sem enginn má hugsa um þar til niðurstaða finnst. Á endanum getur Kóperníkus fáu treyst nema eigin innsæi. 

úr bókinni

Finnur skildi Kjartan eftir hjá Andersen og gekk aftur upp í Assistens og kláraði erindið með skóflu. Hann mundi nokkurn veginn hvar í gröfinni Kjartan hafði staðið þegar hann var stunginn. Yfir huga Finns var svimi. Hann þekkti svimann af ástundun af því að hann var vanur að vaka. Þetta var vökusvimi sem gerði hann skýran og óskýran í senn. Í þessu ástandi var hann fær um allt. Klára erindið, svo sefur maður síðar. Andersen hafði stundum stungið upp á því að hann þæði lyf sem léttu svona rekistefnur en Finni var ekki gefið um það. Hann vildi ekki glata tifandi birtunni yfir höfði sér og kaus frekar að vaka. Hann var metnaðarfullur og Andersen varð að láta sig hafa það. Það er bara einn skrokkur, hugsaði Finnur, ein vaka, og hann ætlaði sér að komast til manns án þess að grípa til örþrifaráða. Hér í Assistens skipti sér hvort eð er enginn af honum. Moldarbeðin hér voru ekki minna virði en anatómísku ritin sem hann hafði þurft að lesa. Við rætur trjánna lágu eldfæri, umbúðir af varningi frá glermeisturum, lauf og púpur sem bjuggu sig undir að verða að fiðrildum næst þegar voraði. En enginn skipti sér af honum. Hvorki þeir sem áttu að sjá um garðinn eða þeir sem komu að vitja látinna ættingja. Það var alltaf eitthvert fólk hér á nóttunni sem stökk yfir múrana til að heilsa upp á liðna ástvini. Fólk var alvant því að einhverjir stúdentar grufluðu í kringum grafir. Eftir nokkrar skóflustungur fann Finnur klukkubúi og beitti þolinmæði til að fanga kvikindin og stinga þeim í lyfjaglas þar til hann náði að telja upp í fimmtíu. Hann notaði hanskana svo hann yrði ekki stunginn. Sýning um að hann lægi hér með spánskflugueitrun á meðan Kjartan vestlaðist upp heima hjá Andersen var nógu sterk til að hvetja hann til sérstakrar vandvirkni. Þetta voru fimmtíu klukkur fyrir Andersen. Hann gekk af stað niður í bæ. Ekki yrða á mig, sagði hann þögull við þá fáu sem urðu á vegi hans. Hann gekk hratt. Þvert á við þreytuna sem smám saman tók sér bólstað í honum mætti borgin honum óðum. Þúsund ár af mannkynssögu. En ekki yrða á mig. Í nótt hef ég sérstöku erindi að gegna.

(s. 208-209)

 

 

 

Fleira eftir sama höfund

Ást og frelsi

Lesa meira

Vökunætur glatunshundsins

Lesa meira

Radíó Selfoss

Lesa meira

Gleðileikurinn djöfullegi

Lesa meira

Fljótandi heimur

Lesa meira

Blóðberg

Lesa meira

Ljóð ungra skálda

Lesa meira

100 þýdd kvæði og fáein frumort

Lesa meira

Strumparnir: hvar er gáfnastrumpur?

Lesa meira