Beint í efni

Íslensk vatnabók: eða yfirlit um fiskana og veiðimenn þeirra og þær aðferðir sem þeir beita til að ná þeim

Íslensk vatnabók: eða yfirlit um fiskana og veiðimenn þeirra og þær aðferðir sem þeir beita til að ná þeim
Höfundur
Sölvi Björn Sigurðsson
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Fræðibækur

Tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013.

Úr inngangi höfundar:

Ég hef verið fimm ára þegar ég byrjaði að fylgja föður mínum á laxasvæðin í Árnessýslu, sat á bakkanum og fylgdist með stönginni kljúfa loftið, línunni þjóta upp í himingeiminn með sökkuna og öngulinn á endanum þar til veiðimaðurinn tókst á loft og sveif eitt andartak nokkra sentímetra yfir jörðinni. Þá var tekið á rás og hlaupið meðfram klettum sem hnigu líkir steyptum fossum ofan í jökulfljótið. Hinir veiðimennirnir lögðu frá sér stangirnar og fylgdu á eftir. Þeir hugsuðu ekki um neitt annað en fiskinn, gleymdu konunni sinni og börnunum, öllu nema þessari dýrmætu bráð sem varð að komast í háfinn áuðr en hún sliti sig lausa og synti á burt, horfin okkur að eilífu. Gleðin var ósvikin þegar fiskurinn kom á land, jafnstór og nýborinn kálfur. Seinna náði ég mér í línu og öngul, fleygði út ormi í litla vík þar sem straumurinn var hægari og minni líkur á að ég bærist með ánni út í sjó. Þarna veiddi ég fyrstu fiskana í Ölfusá, brúna silunga á stærð við teskeiðar sem ég vafði inn í hvíta plastpoka og skorðaði með grjóti í fjöruborðinu svo þeir héldust ferskir fram undir kvöldmat.

Það rann ekki upp fyrir mér fyrr en síðpar, þegar dagar þessara bernskuveiða voru liðnir, að margar bestu stundir æskunnar eru bundnar við þessa á og vötnin uppi á hálendi þar sem við sóttum á hverju sumri. Við vorum veiðimenn, það var í eðli okkar og öll sjálfsmynd okkar tók mið af þvi´, ef ekki sjálfur tilgangur lífsins. Ekki spillti heldur að fátt var jafnskemmtilegt og að standa úti í guðsgrænni náttúrunni, finna vindinn leika um vitin þar til fiskurinn beit á. Þá gleymdi maður ölu. Síðar varð dvölin á eyrunum, uppi á fjöllunum og í gljúfrunum, með allri þeirris ögu sem umvefur landið, æ stærri þáttur af leitinni að fiskunum. Nú veiði ég orðið sjaldnar, les mér til um veiðarnar æ oftar, og þó verð ég enn gripinn þessari sömu tilfinningu og í gamla daga ef ég kemst út í á. Það er tilfinning endimarkaleysis og andríkis, þegar sjálft sköpunarverkið tekur mann að sér og ákveður að færa manni fisk.

(11)

Fleira eftir sama höfund

Ást og frelsi

Lesa meira

Vökunætur glatunshundsins

Lesa meira

Radíó Selfoss

Lesa meira

Gleðileikurinn djöfullegi

Lesa meira

Fljótandi heimur

Lesa meira

Blóðberg

Lesa meira

Ljóð ungra skálda

Lesa meira

100 þýdd kvæði og fáein frumort

Lesa meira

Strumparnir: hvar er gáfnastrumpur?

Lesa meira