Beint í efni

Hrafnaspark

Hrafnaspark
Höfundur
Eysteinn Björnsson
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Barnabækur

Úr Hrafnaspark

Komnir í kofann. Ekkert rafmagn. Geymirinn sem safnar sólarorkunni steindauður. Enda kominn til ára sinna. Þeir stauluðust inn með vasaljós. Afi kveikti á gasofninum og tveimur fjósaluktum, náði í gaskút út í skúr og tengdi við eldavélina. Svolítið bras að fá upp loga en svo gekk það.
Enginn bílvegur að húsinu. Afi var vanur að stæra sig af því. Aðalkosturinn við kofann. Að eiga það ekki á hættu að ökufantar kæmu spænandi hvenær sem var á nóttu sem degi með hávaða og gauragangi, græjurnar stilltar í botn. Nei, hér fékk maður frið fyrir þessum reykspúandi drekum og ruddafenginni framkomu knapanna. Hingað kæmu engir nema fuglar himinsins og hagamýs, hér gat maður um frjálst höfuð strokið og notið lífsins og náttúrunnar, verndaður gegn mengun og tryllingi tækninnar. Svo væru hér engir aðrir bústaðir í næsta nágrenni eða sveitabæir, og það væri sannarlega alveg einstakt nú til dags.
Hrafn var að hugleiða hve oft hann hafði hlustað á þennan pistil þar sem hann paufaðist áfram í myrkrinu. Hann hafði afþakkað vasaljósið sem afi rétti honum og var nærri dottinn þegar hann rak fótlegginn í stein. Hann bölvaði hressilega um leið og hann settist niður og nuddaði á sér fótinn. Það var kominn strekkingsvindur. Hann hafði gleymt úlpunni í bílnum og honum var hrollkalt. Hvers konar djöfuls asni hafði hann verið að láta kallinn plata sig í þennan kulda og myrkur. Ekkert sjónvarp, engin tölva, og hvað ... hann fór í vasann og tók upp gemsann. Rafmangslaus. Hann hafði að vísu tekið með sér hleðslutækið, en þar sem ekkert rafmagn var í kofanum – enginn gemsi heldur. Hann hlaut að vera orðin klikkaður. Hann bölvaði aftur um leið og hann staulaðist af stað niður að bílnum.

(bls. 29-30)

Fleira eftir sama höfund

Dagnætur

Lesa meira

Bergnuminn

Lesa meira

Stelpan sem talar við snigla

Lesa meira

Faðir og sonur

Lesa meira

Jónsmessunótt

Lesa meira

Logandi kveikur

Lesa meira

Fylgdu mér slóð

Lesa meira

Í skugga heimsins

Lesa meira

Snæljós

Lesa meira