Beint í efni

Hér

Hér
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur

Um Hér

Stúlkan Billie verður skyndilega miðdepill á hernumdu svæði og hversdagsleg kyrrstaða umturnast á augabragði í válega veröld. Fólkið á ekki annarra kosta völ en skapa sér sinn eigin litla heim inni í stóra heiminum þar sem stríðsherrarnir ráða. Hér er ný skáldsaga Kristínar Ómarsdóttur, um efni sem er því miður sígilt, en eins og hennar er von og vísa tekur hún á því á nýstárlegan hátt.

Úr Hér

Nú vissi hún hvernig var að hanga í þakrennu með buxnastrenginn fastan í einni af bindingunum. Mundi ekki lenda í vandræðum ef hún yrði spurð. Svar Billiear: Sumarið sem ég var ellefu ára, á tólfta ári, festist einn gallabuxnahankinn minn í bindingunni á þakrennunni á skúrnum á sveitabýlinu þarsem ég dvaldi og á sólríkum degi hékk ég í lausu lofti ... Hún stökk niður og rataði beint á spýtu með ryðguðum nagla sem stakk sér í gegnum botninn á fínu bleiku strigaskónum og inní ilina. Héðan í frá mundi bara hinn skórinn stíga í poll. Stúlkan settist í grasið, afreimaði skóinn, lyfti fætinum varlega af naglanum og skónum og klæddi sig úr sokknum. Þó stungan næði djúpt kom lítið blóð en aðeins meira ef hún kreisti sárið. Soffía kenndi henni eitt sinn að setja koparpening á sár eftir ryðgaða nagla annars væri hætta á blóðeitrun. Fyrir áhyggjum af blóðeitrun heyrði hún varla þegar tvö byssuskot endurómuðu úr húsinu. Í framhaldi baulaði kýrin kunnáttusamlega og Rafael dró þann sem hafði greitt sér um hárið á löppunum yfir þröskuldinn og útá tún og flýtti sér aftur inn. Kom að vörmu spori með hinn manninn sem hélt á bréfinu. Hann gat hafa ætlað að nota það sem skjöld eða brynju. Kannski dugar það einhvern tíma ef orðin fá mátt. Sokkalaus á öðrum fæti leit Billie upp. Ef Rafael sá hana forðaðist hann að sjá hana og stóð yfir líkum mannanna tveggja, smekkbuxurnar skellóttar, skyrpti í grasið, sparkaði í stéttina af óskynsamlegu afli þar eð þetta var nú bara stétt.

Djöfulsins andskotans, helvítis djöfull. Ég nenni ekki að jarða þessa menn. Andskotans, andskotans, andskotans. Bræðin í rómnum minnti á einhvern sem kynni bráðum að fara að gráta. Hann þreif til sín rauða olíubrúsann, skvetti bensíni yfir líkin, kastaði logandi eldspýtu á bunkana um leið og jakkafötin höfðu drukkið í sig nægju sína. Það varð mikill, snöggur blossi. Líkin fuðruðu upp og reykurinn breyttist í strá á himnum. Grassvörðurinn í sót. Rafael tendraði í sígarettu, stakk henni milli varanna, skóflaði möl upp í hjólbörurnar, sturtaði niður úr hjólbörunum yfir blettinn og jafnaði úr mölinni með garðhrífunni.

Hættu þessu glápi, stelpa, sagði hann og tennurnar í hrífunni glömruðu í mölinni. Kýrin baulaði. Hænurnar létur ekki sjá sig eða heyra frá sér.

(s. 90 - 91)

 

Fleira eftir sama höfund

Við tilheyrum sama myrkrinu – af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo

Lesa meira

Children in the Reindeer Woods

Lesa meira

Hjartatrompet

Lesa meira

Margrét mikla

Lesa meira

Smásögur

Lesa meira

Afmælistertan

Lesa meira

Margar konur

Lesa meira