Beint í efni

Frjálsar hendur: kennarahandbók

Frjálsar hendur: kennarahandbók
Höfundur
Helgi Ingólfsson
Útgefandi
Óðinsauga
Staður
Mosfellsbær
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur


Um bókina:

Er framhaldsskólinn í landinu að fara til fjandans? Tveir kennarar við Fjölbrautarskólann i Kringlumýri, uppfullir af heimsósómahugmyndum, kljást við misáhugasama æsku landsins, en eltast í frístundum við ólík áhugasvið sem snerta fjölda fólks, til dæmis misheppnaðan rithöfund, vansæla þingmannsfrú, útrásarvíking í útlegð og mótorhjólagengi.

Úr Frjálsum höndum:

„Opna!“

Um þrjátíu manns lyftu loki á fartölvum samtímis. Eiríki þótti þetta næstum-austurlenska samhæfingarritúal byggjast á barnalegri kennslufræði, en jafnvel einföld athöfnin vafðist fyrir fáeinum fákunnandi. Allur þorri - hinir reyndari og lagnari - setti upp óþolinmóða háðsgrettu.

„Og ræsa!“ kallaði fyrirlesarinn.

„Ræsa?“ gall við í annarri af eldri konunum. Hún hafði sýnilega haft sig til fyrir námskeiðið, málað sig og varalitað, þykkt og silfurgrátt hárið uppsett, svartur sjiffonkjóll, perlufesti.

„Kveikja á!“ útskýrði fyrirlesarinn, myndarlegur ungur maður, geislandi af sjálfsöryggi, klæddur jakkafötum og bindi, með titla á borð við MCE og MBA hnýtta aftan við nafn sitt. Eiríkur hafði talið manninn sprenglærðan, uns hann komst að því að þetta voru ómerkileg pungapróf í eigu Bill Gates. Sú var tíðin að akademikerar báru skammstafanir með stolti á eftir nafni sínu - BA, BS, MA, Ph.D. Ekki var lengur trygging fyrir því að skammstöfun úr tölvu- eða viðskiptaheiminum fæli í sér strembið háskólanám. Þegar þetta mál bar einhvern tíma á góma á kennarastofunni, hafði Róbert frönskukennari, sem státaði af doktorsprófi frá Aix-en-Provence, í flími sagt að hann væri að hugsa um að bæta skammstöfuninni RUSL aftan við nafn sitt í símaskránni - Reyndur úr skóla lífsins.

„Kveikja á?“ mælti eldri konan. „Ó, ég skil.“

Meðan tölvurnar ræstu sig útskýrði fyrirlesarinn fyrir nemendum hvers vegna þessi háttur væri hafður á. „Tölvurnar sem þið eruð með í höndum, og verða ykkar eign að námskeiðinu loknu, hafa verið prógrammeraðar til að ...“

„Prógrammeraðar?“ spurði fína frúin. Hinir reyndu litu með vandlætingu hverjir á aðra, eins og ókunnugir gera þegar þeir hneykslast. Þessi gjammamma ætlaði heldur betur að verða dragbítur.

„Forritaðar,“ svaraði fyrirlesarinn. Á tjaldi að baki hans sýndi geisli skjávarpans að tölvan var að ræsa stýriforritið.

„Ó!“ sagði sú gamla. Ekkert „Ég skil“ núna.

„Þær hafa verið forritaðar til að þjona eingöngu tilgangi námsins. Á þessu stigi eruð þið ekki með neinn aukabúnað í tölvunum, umfram það sem þarf til námskeiðsins – það kemur allt síðar. Og við erum ekki nettengd fyrr en ég kveiki á þessum rofa hérna.“ Fyrirlesarinn benti á lítið tæki við hliðina á hans eigin fartölvu. „Ástæðan fyrir þessu er að sjálfsögðu sú að nettengdir nemendur láta hugann reika og missa athyglina. Þetta eru nútímalegar kennsluaðferðir, sem hámarka virkni og athygli ykkar sem nemenda. Ef einhverjir kennarar eru hérna, þá skilja þeir þetta.“ Hann leit yfir hópinn og Eiríkur velti fyrir sér hvort hann ætti að gefa sig fram, en hætti við. „Það er semsagt ekki einu sinni kapall inni í tölvunni ykkar, ef ykkur skildi leiðast. Ekkert hangs í vinnunni.“ Muldur heyrðist frá einhverjum sem þóttist fær í flestan sjó og sá fram á drepleiðinlega yfirferð undirstöðuatriða. „Þegar við hjá Nýja upplýsingatækniháskólanum fórum af stað með þessi vinsælu námskeið í hitteðfyrra,“ hélt fyrirlesarinn áfram, „rákum við okkur fljótt á að lengra komnir nemendur gerðu ýmsilegt sem þeir áttu ekki að gera – fóru á netið eða voru í leikjum – ef kom að efni sem þeir þekktu. Þegar á hólminn var komið, þá skiluðu þessir nemendur slökustum árangri. Þeir fylgdust ekki með atriðum, sem gátu aukið þekkingu þeirra og svo voru þeir stöðugt að spyrja spurninga um efni sem búið var að fara í. Auk þess leið varla sú kennslustund að þeir lentu ekki í vandræðum með fikti sínu, frystu tölvurnar og þar fram eftir götum. Það sem er inni á tölvunum hjá ykkur er afrakstur nákvæmrar þarfagreiningar í námskeiðahaldi.“

(51-3)

 

Fleira eftir sama höfund

Sandkorn úr stundaglasi eilífðarinnar

Lesa meira

Þægir strákar

Lesa meira

Þegar gestur fór

Lesa meira

Enn af kerskni og heimsósóma : ásamt barnasögum fyrir fullorðna

Lesa meira

Kver um kerskni og heimsósóma

Lesa meira

Blá nótt fram í rauða bítið

Lesa meira

Andsælis á auðnuhjólinu

Lesa meira

Eldurinn og andinn

Lesa meira

Greinilega kóngi að kenna

Lesa meira