Beint í efni

Fölsk nóta

Fölsk nóta
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur

Um Falska nótu:

Þegar Ari Þór Arason fær himinháan erlendan greiðslukortareikning sem hann kannast ekkert við tekur líf hans algjörum stakkaskiptum. Reikningurinn er nýlegur og virðist hafa átt að berast föður og alnafna Ara sem hvarf með dularfullum hætti mörgum árum fyrr, þegar Ari var barn að aldri. Hann ákveður að leita skýringa á þessum undarlega reikningi og um leið heldur hann á vit fortíðarinnar í leit að sannleikanum um föður sinn. Hvers vegna hvarf hann sporlaust? Hvernig gat hann skilið eiginkonu og son eftir í einsemd og sorg? Hvar er hann niðurkominn? Eða var hann kannski myrtur og hver vildi hann þá feigan?

Úr Falskri nótu:

Reykjavík, fjórum mánuðum síðar,
fimmtudaginn 27. júlí 2006

Ari lokaði augunum. Ekkert gerðist. Kristínu hafði tekist að vekja hann með sms-skilaboðunum. Hann opnaði augun aftur, horfði í kringum sig í hvítmáluðu, rúmgóðu svefnherberginu. Stundum fékk hann næstum ofbirtu í augun þarna inni, hann þurfti svo sannarlega að velja sér mýkri lit næst þegar hann tæki sig til og málaði veggina. Vekjaraklukkan var ekki í sambandi, hann þurfti ekki að mæta í vinnuna fyrr en um kvöldið hvort sem var. Á náttborðinu var kaffibolli, tóm bjórdós og tvær námsbækur. Fötin lágu í hrúgu á stól við hliðina á rúminu.

Ari bjó á Öldugötunni. Þetta var lítil íbúð, húsið byggt um miðja síðustu öld. Hann var sáttur þarna – nokkuð sáttur. Hann átti að minnsta kosti sína eigin íbúð.

Stofan var ekki sérlega stór. Gamall sófi og lítið sófaborð fylltu næstum upp í rýmið. Á sófaborðinu var tómur pitsukassi. Ari skildi ekki hvernig hann gat enn borðið pitsur, þegar hann eyddi heilu kvöldunum í að sendast með þær. Hann vissi að einn góðan veðurdag myndi hann fá nóg og aldrei borða pitsu aftur, en þangað til ætlaði hann að borða eins mikið og hann gæti í sig látið. Þögul tónlistarmyndbönd glæddu stofuna lífi, þar sem það var enn kveikt á sjónvarpinu frá nóttinni áuðr, en slökkt á hljóðinu. Það sem einna helst hefði vakið athygli aðkomumanns í íbúðinni var Kjarvaslmálverkið á einum stofuveggnum. Eina málverkið í íbúðinni, en sannarlega ekkert slor. Hann hafði fengið það frá ömmu sinni. Það hafði ekki hvarflað að honum að selja það. Það hafði meira tilfinningalegt gildi en fjárhagslegt. Hann grunaði þó að hann gæti fengið nokkur hundruð þúsund krónur fyrir það, kannski milljón; það voru peningar sem gátu auðvitað komið sér vel.

Ara grunaði ekki hvaða áhrif pósturinn þennan morguninn átti eftir að hafa á hann. Innan um dagblöð og ýmiss konar ruslpóst lá framandi umslag. Umslag frá Bretlandi, með nafninu hans, „Ari Thor Arason“. Upphaflega heimilisfangið á umslaginu var í London, heimilisfang sem hann kannaðist ekkert við. Hins vegar var nú búið að strika yfir það og handskrifa utan á umslagið gamalt heimilisfang foreldra hans. Loks var buíð að strika yfir það heimilisfang og enn kunnuglegra heimilisfang stóð eftir, íbúðin hans í Vesturbæ Reykjavíkur.

(16-7)

Fleira eftir sama höfund

reykjavík

Reykjavík

Í ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey og eftir það spyrst ekkert til hennar.
Lesa meira

Vetrarmein

Lesa meira

Hvítidauði

Lesa meira

the island

Lesa meira

Fuori dal mondo

Lesa meira

La sombra del miedo

Lesa meira

Snezna slepota

Lesa meira