Beint í efni

Brekkan

Brekkan
Höfundur
Carl Frode Tiller
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um bókina

Skáldsagan Skråninga eftir Carl Frode Tiller í þýðingu Kristian Guttesen.

Brekkan er frumraun norska höfundarins Carls Frode Tiller. Hún vakti mikla athygli og vann til fjölmargra verðlauna. Leikgerð sögunnar var sett upp í norska þjóðleikhúsinu árið 2004 og hlaut verkið fádæma vinsældir.

Úr Brekkunni

Við sátum og töluðum um hitt og þetta. Konan talaði mest um stjömuspeki og tarotspil. Maðurinn sagði að stjörnuspeki og tarotspil væru tóm þvæla en hún fullyrti að vísindin staðfestu þessi fræði. Þú getur ekki neitað því að tunglið hefur áhrif á tíðahring kvenna, sagði hún. Og hvað með Nostradamus? bætti hún við. Búralegi maðurinn skipaði henni að fara nú að halda kjafti. Hann endurtók að stjörnuspeki væri bölvuð þvæla. Ég sagði að ég vissi ekki svo mikið um stjörnuspeki og tarotspil. Síðan bætti ég við að þetta væri samt mjög spennandi. Búralegi maðurinn sneri sér að mér og starði hvasst á mig. Hann hélt augnsambandi við mig í fleiri sekúndur og svo skellti hann upp úr. Hann bandaði frá sér með hendinni og sagðist bara vera að grínast í mér. Ég náði rétt svo að kreista upp vandræðalegan hlátur. Ég sagðist þurfa að skreppa á klósettið. Ég hafði þegar farið mörgum sinnum á klósettið. Ég sat lengi á klósettinu, síðan sturtaði ég niður og fór aftur inn í stofu. Konan spurði hvað ég gerði dags daglega. Ég svaraði að það væri eiginlega ekki svo mikið, í augnablikinu væri ég atvinnulaus. Búralegi maðurinn horfði beint á mig og spurði hvort ég væri kannski öryrki. Ég gat ekki svarað honum undireins og sat með hálfopinn munninn fyrir framan þau. Konan sneri sér hægt að manninum. Hún hallaði undir flatt og horfði á hann. Hún sagði að nú mætti hann aðeins fara að stilla sig. Hún hló ekki lengur að honum. Hún hljómaði allt í einu eins og hún meinti það sem hún sagði. Búralegi maðurinn hélt áfram að hlæja. Hann lyfti glasinu að vörunum. Ég spurði bara, sagði hann. Það hlýtur að vera í lagi að spyrja. Ég spurði konuna hvað hún gerði. Konan var alveg að fara að segja hvað hún gerði en búralegi maðurinn greip fram í fyrir henni. Hún er í undirkjólabransanum. Hann hló að því sem hann hafði sagt. Mér fannst þetta ekki svo fyndið en kreisti samt upp vandræðalegan hlátur. Konan var alveg hætt að hlæja núna og þegar ég tók eftir því hætti ég líka að hlæja. Hún hristi hausinn og skók sig aftur. Hún sagði að nú væri komið nóg og þetta væri ekki fyndið lengur. Búralegi maðurinn hélt áfram að hlæja. Hann horfði á konuna meðan hann hló. Svo sagði hann að hún mætti ekki fara í fýlu. Hann sneri sér að mér og hnykkti höfðinu í átt að konunni. Sjáðu hvað hún er reið, sagði hann. Hún er ábyggilega á túr. Búralegi maðurinn hélt augnaráðinu og hló. Heldurðu ekki að hún sé á túr? spurði hann. Ég kreisti fram skakkt bros. Djöfullinn hafi það, sagði konan. Hvað er eiginlega að þér? Búralegi maðurinn kláraði koníakið í einum teyg. Hann hélt áfram að tala um konur og tíðahringi. Hann talaði um reiðar konur á túr og með fyrirtíðaspennu. Ég hafði ekki hugmynd um hvað fyrirtíðaspenna var en ég brosti vandræðalega þegar hann sagði það. Stuttu síðar sneri konan sér að mér. Hún herpti saman munninn og reyndi að láta eins og maðurinn væri ekki þarna. Hún sagðist vinna sem húshjálp í augnablikinu. Hún fór að segja frá því hversu erfitt það væri að vinna sem húshjálp og ég hlustaði á allt sem hún sagði. Búralegi maðurinn sat bara og drakk koníakið. Hann skenkti sér aftur og aftur. Skyndilega sneri konan sér að honum og spurði hvort hann væri eitthvað sérstaklega þyrstur. Hann sagðist vera nokkuð þyrstur, já. Hún sagði að hann væri heldur ekki sérlega hlédrægur. Síðan hnykkti hún höfðinu í áttina að hálffullri koníaksflöskunni og horfði önuglega á hann. Búralegi maðurinn virtist skyndilega mjög reiður. Hann benti á mig á meðan hann sneri sér að konunni. Heyrðirðu ekki hvað hann sagði, hreytti hann í hana. Hann sagði að það væri bara um að gera að fá sér. Konan hnussaði hæðnislega þegar hann sagði þetta. Hann spurði hvað hún væri að hnussa þarna. Það er líka til eitthvað sem heitir mannasiðir, sagði hún. Hann sagði að þetta kæmi úr hörðustu átt. Búralegi maðurinn var að verða æstur. Hann talaði mjög hátt og mér fannst ég verða að beina samræðunum inn á aðra braut. Kannski myndi hann róast ef við töluðum um eitthvað annað. Þú þolir að minnsta kosti mikið áfengi, sagði ég. Ég held ég hafi aldrei hitt nokkurn sem þolir jafnmikið áfengi, bætti ég við og reyndi að brosa til búralega mannsins. Hann starði allt í einu beint á mig. Hann ríghélt augnsambandinu við mig. Þessi maður gerði mig sífellt taugaóstyrkari. Hann hristi skyndilega hausinn. Djöfulsins bjáni, sagði hann og kláraði koníakið í einum slurk. Hann tók flöskuna og hellti aftur í glasið. Hann spurði hvort ég ætlaði eiginlega ekkert að drekka. Hann var hvassyrtur og uppstökkur. Hann hélt áfram að horfa fast á mig. Ég sagði að ég gæti ekki drukkið mikið því ég hefði drukkið mikið viskí fyrr í kvöld. Hann tók annan slurk af koníakínu. Það var gott að heyra, sagði hann. Þá er líka meira fyrir okkur hin. Hann hló með sjálfum sér. Skordýralappirnar byrjuðu að skríða undir húðinni á mér. Ég varð sífellt taugaóstyrkari og tærnar á mér skriðu hver yfir aðra. Búralegi maðurinn hnykkti hausnum í áttina að græjunum. Hann spurði hvort ég ætti ekki einhverja aðra músík en þetta. Ég reyndi að brosa og spurði hvort honum líkaði ekki djass. Hann hnussaði og hnykkti til höfðinu. Þetta hljómar eins og býsveimur, sagði hann. Ég fór að geisladiskarekkanum og leit yfir diskana mína. Eftir stutta stund spurði ég hvers konar músík hann fílaði. Hann sagðist fíla alls konar músík. Þú fílar greinilega ekki þessa, umlaði konan. Búralegi maðurinn sneri sér snöggt að henni. Hún vék undan augnráði hans, greip koníaksglasið og færði það að munninum. Hún starði í stutta stund ofan í glasið og saup varlega af því mörgum sinnum. Búralegi maðurinn spurði hvort hún væri heyrnarlaus eða hvað. Konan sagði ekki neitt. Ertu heyrnarlaus? spurði hann aftur. Ég sagðist fíla alls konar músík, sagði hann. Hann starði brjálaður á hana. Þetta er ekki músík, sagði hann svo. Konan svaraði engu og starði bara ofan í glasið sitt.

(78-81)

 

Fleira eftir sama höfund