Beint í efni

Blómið – saga um glæp

Blómið – saga um glæp
Höfundur
Sölvi Björn Sigurðsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur

Um Blómið

Athafnamaðurinn Benedikt Valkoff vaknar um miðja nótt á heimili sínu við Sjafnargötu í Reykjavík og fer að brjóta saman þvott. Hann á afmæli, en dagurinn markar önnur tímamót. Þrjátíu og þremur árum fyrr hvarf litla systir hans meðan foreldrar þeirra voru að heiman. Enginn veit hvað af henni varð – eða hvað?

Það er komið að uppgjöri. Barnið sem hvarf er enn ljóslifandi; steinn í brjósti foreldra sinna og bróður, ráðgáta þeim sem síðar bættust við fjölskylduna. Að kvöldi þessa kyrra dags, eftir ferðalög í tíma og rúmi, rennur stund sannleikans upp.

Úr Blóminu

„Allt var öðruvísi þá,“ sagði Guðrún og Bensi byrjaði ósjálfrátt að sveifla fætinum. Hann vissi að það yrði minnst hálftími þar til hann kæmist heim til að leggja sig. „Krútsjov hafði setið í sex ár sem öflugasti leiðtogi Flokksnefndarinnar og var nýstiginn til hliðar fyrir Bresnjev og Kosygin. Í Rússlandi var allt á hraðferð.“

„Mikið að gerast þá, auðvitað,“ sagði Bensi og hugleiddi enn hvernig hann gæti komið sér út úr þessu.

„Þegar ég kom út sýndi Pétur mér handskrifað eintak af sögu Bulgakovs um Meistarann og Margarítu sem hann hafði fundið inni á klósetti í Balachikha. Svona var þetta þá og ég man hvað ég var hrifin af þessu öllu. Að búa í heimi sem var eins og til hliðar við heiminn. Því það mátti ekki gera allt sem fólk gerði. Pétur hafði gengið til móts við þetta nýja Rússland sem hreiðraði um sig á bakvið hörkuna í samskiptum stórveldanna. Ég held að hann, eins og flestir, hafi glaðst yfir því að Stalín vakti ekki lengur yfir öllu, þó enginn minntist auðvitað nokkru sinni á það.“

„Þú veist að klukkan er orðin rúmlega fjögur og við þurfum víst að drullast þarna austur í kvöld. Við ættum kannski að bíða með svona sögur þar til þá? Svo við höfum að minnsta kosti eitthvað að tala um þegar við hittumst?“

„Nei, Bensi, þú getur vel leyft mér einu sinni að segja frá því sem mér liggur á hjarta. Málið er að Pétur gekk ekki bara á svig við tímana heldur líka við Flokksnefndina. Ég komst vel að því seinna að pólitíkin risti aldrei jafn djúpt og vísindamaðurinn.“

„Klukkan er bara orðin svolítið margt.“

„En þegar Valkó féll þarna í Hruninu, var klukkan þá orðin of margt? Það var nú ekki svo lítið sem þið feðgarnir gátuð talað um það, stundum við alla fjölmiðla landsins. Þetta fall ykkar þarna úti var bara framhald af þessu öllu saman. Framhald af Chernogolovka. Framhald af 1982. Framhald af sögunni."

„Jæja. Við verðum þá bara bæði úrvinda í veislunni.“

„Skítt með það. Við höfum verið úrvinda meirihlutann af ævinni hvort sem er. Ef þú nennir að hlusta þá byrja ég á byrjuninni og þú reynir kannski að stilla þig um að grípa fram í.“

Bensi greip ekki fram í heldur dró undir sig kodda og lagðist upp í sófann. Eitt andartak fann hann lyktina af teppinu í forstofunni þegar þau Magga komu heim og fóru aftur út á tröppurnar til að dusta sandinn af stígvélunum. Þau settust inn í stofuna þar sem hann lá núna og hann nuddaði burt síðasta sandinn á milli tánna á henni. Þau horfðu á sandinn falla á gólfið og hann blikkaði hana svo hún skildi að þetta væri bara þeirra á milli. Sandur sem sópast á stofugólf er bara á milli barna. Allt sem raunverulega skiptir máli kemur hinum ekki við. Maður hefur foreldrana þegar dagurinn er búinn og kyrrðin færist ylir heimilið en í dagsbirtunni er maður jafn fullorðinn og þau, jafn berskjaldaður undir sólinni og þau.

Hann hafði ekki hugsað svona lengi og í raun ekki haft að- gengi að nokkru sem dró hann svona sterkt aftur í bernskuna. Þessi fáeinu skipti sem hann hafði heimsótt Guðrúnu síðustu ár höfðu þau talað um kvótann, um byggðafrumvörpin og aflandsfélögin og veðrið og allt hitt sem fréttatímarnir mötuðu þau á svo þau kæmust hjá því að horfa í augun hvort á öðru.

Nú sat hann hérna í þögninni á meðan móðir hans drakk te og reyndi að koma fyrir sig fyrstu setningunni í sögunni sem hún ætlaði að segja honum. Orð til að rjúfa þögnina sem tíminn hafði sveipað þau. Hann var að sofna. En hann mátti ekki sofna. Guðrún lagði frá sér tebollann og byrjaði að tala.

(68-70)

Fleira eftir sama höfund

Ást og frelsi

Lesa meira

Vökunætur glatunshundsins

Lesa meira

Radíó Selfoss

Lesa meira

Gleðileikurinn djöfullegi

Lesa meira

Fljótandi heimur

Lesa meira

Blóðberg

Lesa meira

Ljóð ungra skálda

Lesa meira

100 þýdd kvæði og fáein frumort

Lesa meira

Strumparnir: hvar er gáfnastrumpur?

Lesa meira