Beint í efni

Aþena: Hvað er málið með Haítí?

Aþena: Hvað er málið með Haítí?
Höfundur
Margrét Örnólfsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Unglingabækur

Um bókina

Hvað gerir maður þegar maður fær farmiða til Flórída í jólagjöf en á ekki að fara fyrr en eftir hálft ár? Jú, telur niður dagana og reynir að gera eitthvað skemmtilegt á meðan maður bíður.

En það er ekkert skemmtilegt þegar franskur trúður rænir besta vini manns og svo bestu vinkonunni líka, mamman virðist stefna á að setja heimsmet í óléttudellu - og hvað er eiginlega málið með ömmu Rósí og Haítí?!

Aþenu finnst lífið ekki geta orðið miklu flóknara en þar skjátlast henni. Hún biður um kraftaverk - skyldi henni verða að ósk sinni?

Úr Aþena: hvað er málið með Haítí?

Það heyrist hringihljóð frá tölvunni og ég veit undireins hvað það þýðir, amma er að hringja í mig á Skype-inu. Ætli amma Rósí finni það á sér alla leið yfir hafið að nú vantar mig einhvern til að tala við? Ég tek stofugólfið í nokkrum loftstökkum og svara.

Hæ! Amma? Hæ, hæ!

Í fáti fikta ég við tölvuna til að fá upp skjámyndina af ömmu Rósí. Glugginn er örsmár og ég sé ekkert nema sjálfa mig í einu horninu en loksins tekst mér að stækka hann svo skælbrosandi andlit ömmu fyllir út í allan skjáinn.

Hæ! Lord in heaven, gleymdi einhver að greiða sér í morgun eða var bad hair day í skólanum?

Ég strýk yfir hárið á mér, það hefur farið í einhverjar beyglur þegar ég klæddi mig úr hettupeysunni. Amma Rósí er tölvuvæddasta amma sem ég veit um. Við kynntumst auðvitað á Facebook og þar tölum við saman reglulega, bara eins og vinkonur, sendum skilaboð á milli og myndir af okkur og svoleiðis. Þar að auki kenndi hún mér líka að nota Skype-forritið sem er svona eins og tölvusími. Algjör snilld því þannig getur maður séð þann sem maður er að tala við. Ég vissi ekki baun um þetta fyrr en amma hjálpaði mér að hala forritinu niður í tölvuna, því hún vildi endilega koma þessu í gagnið áður en hún færi aftur heim til Bandaríkjanna í fyrrasumar.

Jæja, hvað eru margir dagar eftir núna?

73, svara ég um hæl.

Amma hlær. Henni finnst svo gaman hvað ég er spennt að koma til hennar.

Hvernig er lífið annars?

Bara ... ágætt, svara ég og veit að það hljómar ekkert rosalega sannfærandi, enda er amma fljót að skynja það.

Hvað er að angra þig, ljósið mitt? Ef lífið er ekki great þá er eitthvað að.

Æ, það er svo sem ekkert ... merkilegt.

Og áður en ég veit af er ég farin að rekja raunir mínar. Rósí hallar sér fram með hönd undir kinn og hlustar einbeitt á svip. Hún truflar mig ekki í eitt einasta skipti heldur leyfir mér bara að hella úr mér gremjunni og kvartinu og kveininu.

 ... og nú á ég engan vin! Nema kannski eina nýja stelpu en hún er svo feimin að það er eiginlega frekar mikið puð að vera með henni. Ég þarf að sjá alveg um að tala og finna upp á einhverju að gera og svona.

Amma virðir mig fyrir sér og ég bíð eftir því að hún segi eitthvað. Hún er nú ekki vön að láta draga orðin út úr sér, þau flæða yfirleitt upp úr henni frekar en hitt.

I see ... segir hún loksins og smellir í góm. Sko, ég hef nú smá reynslu af svona málum. Erjum og ástarflækjum. Ó, já, maður er sko alveg útskrifaður með top grades úr þeirri deild. En ég sé bara eina lausn á þessu.

Ókei ... ég er spennt að heyra þessa frábæru skyndilausn sem mun binda endi á öll mín vandamál.

Þú þarft að fá þér kærasta líka.

Ha?!

Já, þá hættirðu að vera afbrýðisöm út í þennan franska sjarmör sem er búinn að stela bestu vinkonu þinni. Og allir eru happy!

Amma brosir eyrnanna á milli og veifar höndunum eins og montinn töframaður sem er nýbúinn að láta nokkrar kanínur hverfa. Vá, hvað þetta var ekki ráðið sem ég vildi fá! Í fyrsta lagi er ekki eins og maður bara ,,fái sér kærasta“. Það er engin búð sem heitir Kærastabúðin þar sem maður getur bara valið sér eitt styki. Ég er nú líka bara 12 að verða 13 ára, hvar á ég að fá mér kærasta? Úti á róló?! Auk þess er líka bara einn sem kemur til greina og hann er ekki beinlínis að fara að svara auglýsingunni ,,Kærasti óskast“.

(s. 65-67)

 

Fleira eftir sama höfund

Með heiminn í vasanum

Lesa meira

Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;)

Lesa meira

Regína

Lesa meira

Réttur, þáttaröð 1 og 2

Lesa meira

Galdrabókin

Lesa meira

Aþena – að eilífu, kúmen!

Lesa meira

Mánasöngvarinn

Lesa meira

Leikið lausum hala : sögu- og litabók : sagan um það þegar Prentvillupúkinn laumaði sér inn í Prentsmiðjuna Odda

Lesa meira