Slóðir Halldórs Laxness í miðbænum

Reykjavik Culture Walks er app á vegum Bókmenntaborgarinnar sem hefur að geyma göngur með leiðsögn um miðborgina þar sem bókmenntir eru í brennidepli.

Ný rafræn bókmenntaganga

Nú hefur ný ganga bæst við um Nóbelsskáldið Halldór Laxness. Haukur Ingvarsson er leiðsögumaður og fer hann um slóðir Halldórs í miðborginni og segir frá nokkrum stöðum sem tengjast sögu hans þar. Með Hauki í för er enginn annar en Halldór sjálfur því hann les upp úr nokkrum verkum sínum í göngunni og er upplesturinn fenginn frá Ríkisútvarpinu. Guðni Tómasson les einnig upp.

Fyrst er að sjálfsögðu gengið að fæðingarstað Laxness að Laugavegi 32 en einnig koma við sögu hús sem hann bjó í um lengri eða skemmri tíma eða hafði önnur tengsl við. Til að mynda er komið við á Vegamótastíg 9, litið við hjá Mjólkurfélagi heilagra á Spítalastíg, Melkot er heimsótt svo og heimili Halldórs við Vesturgötu. Alls eru viðkomustaðirnir sem tengjast sögu skáldsins tíu. Við mælum með því að þeim sé fylgt í réttri röð, en það má líka staldra við á völdum stöðum eftir áhuga hvers og eins.

Bókmenntaborgin vann gönguna í samstarfi við Gljúfrastein - hús skáldsins og Ríkisútvarpið og þakkar báðum gott samstarf. Eins og áður sagði er Haukur Ingvarsson leiðsögumaður og setti hann gönguna saman í samráði við Bókmenntaborgina. Við gerð hennar var m.a. litið til göngu sem Pétur Ármannsson fór á vegum Vinafélags Gljúfrasteins 2011 og einnig var stuðst við ævisögu Halldórs Guðmundssonar um Laxness. 

Auk göngunnar um slóðir Halldórs geymir Reykjavik Culture Walks þrjár aðrar göngur á íslensku, fjórar á ensku, tvær á spænsku og eina á þýsku. Flestar þeirra eru unnar af Borgarbókasafninu og Bókmenntaborginni en ein af Borgarsögusafni Reykjavíkur.

Reykjavik Culture Walks appið er frítt og hægt að nálgast það fyrir iPhone í App Store og fyrir Android í Google Play Store.  

Reykjavik Culture Walks í Google Play Store 

Reykjavik Culture Walks í App Store

Halldór Laxness Reykjavik Culture Walks