Sigurður Pálsson hlaut maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2016

Sigurður Pálsson

Sigurður Pálsson rithöfundur hlaut Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2016 sem afhent var við hátíðlega athöfn í Landbókasafni 18. maí. Maístjarnan er veitt nú í fyrsta sinn en þetta eru ný verðlaun sem Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn standa að.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2016 hlýtur Sigurður Pálsson fyrir ljóðabók sína Ljóð muna rödd

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

  • „Hér af spássíu Evrópu“ heitir eitt ljóð í bókinni Ljóð muna rödd, bók sem er rík af röddum, ljósi, skuggum, nálægð og fjarlægð. Spássían getur á óvæntan hátt verið auðugt svæði og það lýsir vel skáldinu sem svo yrkir. Í þessari bók birtist auðugur ljóðheimur Sigurðar Pálssonar, skálds sem hefur sannarlega lagt sitt fram til endurnýjunar og krafts íslensks ljóðmáls. Ljóð muna rödd er sterk bók þar sem glímt er við stórar spurningar. Röddin í titlinum er áleitin, ljóðin eru myndræn, tregafull og magnþrungin, en eru jafnframt óður til lífsins og lífsgleðinnar.“

Sigurður Pálsson er fæddur 30. júlí 1948 á Skinnastað í Norður-Þingeyjarsýslu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne og lauk þaðan maîtrise-gráðu og D.E.A. (fyrri hluti doktorsgráðu). Sigurður kenndi við Leiklistarskóla Íslands 1975–1978 en hefur síðustu ár sinnt kennslu við ritlistardeild Háskóla Íslands. Fyrsta ljóðabók Sigurðar Ljóð vega salt kom út 1975 en alls hefur hann sent frá sér 16 ljóðabækur.

Sigurður er afkastamikill rithöfundur á öðrum sviðum. Fyrir fyrstu bókina í endurminningaþríleik sínum, Minnisbók (2007), hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin. Sigurður er einnig eitt vinsælasta leikskáld þjóðarinnar en hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir handrit sitt að Utan gátta (2008). Árið 2007 sæmdi Frakklandsforseti Sigurð riddarakrossi Frönsku Heiðursorðunnar (Chevalier de l’Ordre National du Mérite). Sigurður hefur auk þess verið mikilvirkur þýðandi og má þar nefna ljóð eftir Paul Éluard og Jacques Prévert og skáldsögu franska Nóbelsverðlaunahafans Patricks Modiano. Á síðasta ári komu út þýðingar Sigurðar á Ummyndanir og fleiri ljóð eftir Willem M. Roggeman og Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud sem hann þýddi ásamt Sölva Birni Sigurðssyni. Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2016 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Í dómnefnd sátu Ármann Jakobsson tilnefndur af Rithöfundasambandinu og Áslaug Agnarsdóttir tilnefnd af Landsbókasafni Íslands – Háskólasafni.

Tilnefndar bækurnar ársins 2016 voru:

  • Ég sef ekki í draumheldum náttfötum eftir Eyþór Árnason sem Veröld gaf út;
  • Veröld hlý og góð eftir Magnús Sigurðsson sem Dimma gaf út;
  • Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson í útgáfu JPV;
  • Tungusól og nokkrir dagar í maí eftir Sigurlín Bjarney Gísladóttur í útgáfu Máls og menningar;
  • Óvissustig eftir Þórdísi Gísladóttur sem Benedikt gaf út.