Gestadvöl rithöfunda í Granada

Bókmenntaborgin Granada á Spáni býður nú upp á gestadvöl fyrir erlenda rithöfunda í fyrsta sinn. Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskólann í Granada. Markmiðið er að styrkja alþjóðlega samvinnu á sviði lista með sérstöku tilliti til bókmennta en þetta er eitt af helstu markmiðum Granada sem þátttakanda í Samstarfsneti skapandi borga UNESCO. Dvölin er ætluð ungum og upprennandi höfundum og þurfa þeir að vera á aldrinum 25 – 45 ára. Tekið verður á móti tveimur höfundum og dvelja þeir í borginni á sama tíma.

Bókmenntaborgin Reykjavík tekur við umsóknum frá íslenskum höfundum og þarf að skila þeim í síðasta lagi fimmtudaginn 7. september 2017.

Hverju er verkefninu ætlað að áorka?

Bókmenntaborgin Granada og Háskólinn í Granada setja gestadvölina á fót til að styrkja tengslin milli rithöfunda í Granada og höfunda frá öðrum borgum hvarvetna í heiminum, auka vitund um bókmenntir og menningu Granada og kynna Granada sem borg sem tekur hæfileikafólki frá öðrum löndum opnum örmum.

Fyrir hverja?

Gestadvölin er ætluð ungum og upprennandi höfundum frá öðrum borgum í Samstarfsneti skapandi borga UNESCO eða höfundum sem hafa sterk tengsl við þær.

Hvað er innifalið?

•    Dvöl í Granada í mánuð (31 nótt) fyrir tvo höfunda frá 20. október til 20. nóvember 2017.
•    Ferðakostnaður sem Bókmenntaborgin Granada greiðir.
•    Gisting og fæði. Háskólinn í Granada greiðir gistikostnað höfundanna. Hvor um sig fær herbergi ásamt fullu fæði í Corrala de Santiago, þar sem gestakennarar og aðrir gestir háskólans dvelja.
•    Bókmenntaborgin Granada og Háskólinn í Granada bjóða höfundum upp á tækifæri til að taka þátt í bókmenntalífi borgarinnar, kynna þá fyrir höfundum á staðnum, hitta nemendur, taka þátt í smiðjum o.s.frv.

Corrala de Santiago

Corrala de Santiago

Corrala de Santiago ber dæmigerði byggingalist 16. aldar í Granada vitni. Byggingin er í gömlu hverfi, El Realejo, með húsagarði í miðju og svölum umhverfis þaðan sem gengið er inn í vistarverurnar. Háskólinn hefur átt bygginguna frá 1991 og lét endurgera hana sem dvalarstað fyrir gestakennara og nemendur og menningarmiðstöð þar sem fjölmargir viðburðir hafa átt sér stað á síðustu árum (myndlistarsýningar, leiksýningar, tónleikar, kvikmyndasýningar, ráðstefnur o.s.frv.).

Hvers er vænst af gestunum?

Til viðbótar þeim skrifum sem hver og einn vinnur að á dvalartímanum þarf gesturinn að skrifa texta (skáldaðan eða óskáldaðan), a.m.k. 8.000 slög, sem lýsir reynslunni af dvölinni á einhvern hátt og veita Bókmenntaborginni Granada og Háskólanum leyfi til að birta textann, þýða hann og nota í kynningarskyni. Gesturinn þarf einnig að hafa áhuga á að taka þátt í bókmenntalífinu á staðnum í samráði við gestgjafana. 

Höfundar þurfa að:

  • •    Vera á aldrinum 25-45 ára.
  • •    Hafa fengið a.m.k. eitt verk gefið út (skáldaðan prósa, esseyur, ljóð, o.s.frv.). Ekki má vera um sjálfsútgáfu að ræða. 
  • •    Fylla út umsóknareyðublað – sjá hér: APPLICATION Granada Writers in Residence Programme
  • •    Hafa gott vald á ensku eða spænsku.
  • •    Gera grein fyrir ritverkinu sem unnið verður að í Granada.

Eftirtaldir þættir verða líka teknir til greina en eru ekki skilyrði:

  • o    Áhugi á menningu og sögu Granada.
  • o    Brot (1500–3000 orð) úr eigin verki, á spænsku eða ensku.
  • o    Meðmælabréf.

Valnefnd

Höfundar verða valdir af nefnd skipaðri sérfræðingum sem Bókmenntaborgin Granada og Háskólinn í Granada velja.

Umsóknarferlið og umsóknarfrestur

Senda þarf útfyllt umsóknareyðublað og fylgigögn til skrifstofu Skapandi borgar UNESCO í heimaborg höfundar (í Reykjavík er netfangið bokmenntaborgin@reykjavik.is). Þaðan verður umsóknum komið til Bókmenntaborgarinnar í Granada eigi síðar en 10. september 2017.

Skilafrestur umsókna til Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur er fyrir kl. 17 fimmtudaginn 7. september og verður ekki tekið við umsóknum eftir þann tíma. 

Tilkynnt verður hvaða tveir höfundar verða fyrir valinu þann 20. september og verður hægt að sjá niðurstöðuna á vef Bókmenntaborgarinnar Granada.

Nánari upplýsingar veitir Carmen Casares hjá Granada Ciudad de Literatura UNESCO: carmen@granadaciudaddeliteratura.com