Beint í efni

Bókamessa 2022

Bókamessa 2022

Helgina 26.-27. nóvember verður hin árlega bókamessa haldin milli 11:00 og 17:00

 

Félag íslenskra bókaútgefenda og Bókmenntaborgin standa saman að bókamessu í Hörpu helgina 26. -27. nóvember milli 11:00 og 17:00. Á Bókamessu mætast útgefendur, höfundar og lesendur, njóta samvista hvert annars og alls þess sem heldur orðlistinni í öndvegi. Útgefendur verða með sitt fólk í Flóa en í Kaldalóni verða pallborðsumræður í boði Bókmenntaborgarinnar.

 

Laugardaginn 26. nóvember kl. 13:00 stýrir Dagný Kristjánsdóttir samtali við þrjá höfunda um ástarsögur, þau Rögnu Sigurðardóttur (Þetta rauða, það er ástin, Forlagið – Mál og menning), Guðna Elísson (Brimhólar, Lesstofan) og Silju Aðalsteinsdóttur (þýð. Jane Austen, Aðgát og örlyndi, Forlagið – Mál og menning).

 

Laugardaginn 26. nóvember kl. 15:00 mun Yrsa Sigurðardóttir ræða við Ragnar Jónasson og Katrínu Jakobsdóttur um glæpi í íslenskum skáldskap og bók þeirra Reykjavík – glæpasaga (Veröld).

 

Sunnudaginn 27. nóvember kl. 13:00 verða pallborðsumræður helgaðar smásögum þar sem Björn Halldórsson ræðir við Maríu Elísabetu Bragadóttur (Sápufuglinn, Una útgáfuhús), Örvar Smárason (Svefngríman, Angústúra), Guðjón Baldursson (Og svo kom vorið, Bókaútgáfan Sæmundur) og Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur (þýð. Guadalupe Nettel,Hjónaband rauðu fiskanna, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur / Háskólaútgáfan og ritstj. Með flugur í höfðinu, Forlagið – Mál og menning)

 

Sunnudaginn 27. nóvember kl. 15 stýrir Sunna Dís Másdóttir pallborðsumræðum um erlend skáld á íslenskum ritvelli. Viðmælendur eru Natasha S. (Máltaka á stríðstímum, Una útgáfuhús), Jakub Stachowiak (Úti bíður skáldleg veröld, Páskaeyjan) og Ewa Marcinek (Ísland pólerað, Forlagið – JPV útgáfa)

 

Fyrirmynd, félag myndhöfunda á Íslandi, gefur innsýn inn í þá flóru myndlýsinga sem teiknarar á Íslandi hafa unnið síðastliðin tvö ár með sýningu í Kaldalóni sem stendur alla helgina milli 11:00 og 17:00, fyrir og eftir pallborðsumræður.

Bókamessa 26.-27. nóvember 2022

Bókamessa 2022