Í ár 2021 fagnar Reykjavík bókmenntaborg UNESCO 10 ára afmæli og af því tilefni verður áfanganum fagnað með því að gefa öllum eins árs börnum í Reykjavík bók að gjöf sem minnir á töfra lestursins. Byrjað verður að dreifa bókinni heim til barnanna í apríl um leið og við fögnum alþjóðlegum degi bókarinnar 23. apríl og í lok maí ættu öll börn í Reykjavík sem verða eins árs 2021 að hafa fengið þennan afmælispakka í hús. Þar kynnast börnin hestinum Sleipni – lestrarfélaga barnanna í sögunni Vetrarævintýri Sleipnis eftir Gerði Kristnýju og Gunnar Karlsson. Bókin er skrifuð á íslensku en þýðingar á Vetrarævintýri Sleipnis eru aðgengilegar á ensku, pólsku og sænsku hér á vefnum.
Með bókinni fylgir fallegur bæklingur eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur rit- og myndhöfund sem leiðbeinir uppalendum um lestraráherslur fyrir börn á ólíkum aldri. Bæklingurinn hefst á þessum fallegu orðum: „Fyldu barninu þínu inn í ævintýraheim bókanna. Lesið, hlæið, undrist, grátið, verið hugrökk saman og lifið ykkur inn í bók því lestur er töfrum líkastur“ og minnir hann á mikilvægi þess að byrja snemma að lesa með börnum.
Í stiklunni eru þau Bergrún Íris Sævarsdóttir og Sleipnir - lestrarfélagi barnanna.