Vonarstræti

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008
Flokkur: 

um Bókina

Snemma árs 1908 fóru Skúli og Theodóra Thoroddsen til Kaupmannahafnar til að taka þátt í samningum um framtíð Íslands í danska ríkinu. Um haustið fluttu þau frá Bessastöðum í Vonarstræti. En á þessum fáu mánuðum hafði allt breyst. Íslendingar höfðu gert hljóðláta uppreisn og stefndu nú að sjálfstæði. Skúli var orðinn þjóðhetja en skuggi veikinda og dauða vofði yfir fjölskyldunni í Vonarstræti 12.

Úr bókinni

Hún sýndist róleg þegar þau stigu á land en var það ekki. Þó sá hún hvorki fyrir uppreisnina miklu né þær hörmungar sem biðu hennar sjálfrar. En hún fann framandi lykt og gladdist yfir að vera komin í gin ljónsins. Hættur voru henni að skapi þennan daginn. Líklega hefði hún tekið dansspor á bryggjunni ef hún hefði verið í fjörugri félagsskap. Illu heilli var hún aðeins frjáls í eigin kolli en ekki undan mannasiðum íslenskra betriborgara sem dansa ekki að tilefnislausu.
   Árið var 1908 og þau komu til Kaupmannahafnar þann 27. febrúar. Ferðinni var heitið á Grand Hotel Nissen að Holbergsgötu 14. Sú gata er ennþá til en hótelið er horfið.
   Eftir ellefu daga ferð á skipinu Ceres voru þau ferðaþreytt og notuðu átómóbíl til að komast frá Kristjánshöfn yfir Holbergsgötu sem er rétt neðan við Kóngsins Nýjatorg. Það bar mikið á bílum á götunum þarna í borginni. 
   Á skipinu höfðu verið sjö íslenskir nefndarmenn frá alþingi. Allir milli fertugs og fimmtugs og allir með yfirskegg. Flestir vel í holdum að stórbokka sið. Og þrjár eiginkonur.
   Allt þetta fólk fór síðan beint á Hotel Kongen af Danmark. Nema þau. Þau Thoroddsenhjónin eru einu Íslendingarnir á Grand Hotel Nissen.

(7-8)