Vitleysingarnir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2003
Flokkur: 

Frumsýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu 2000. Gefið út í ritröðinni Íslensk úrvalsleikrit 2003.

Úr Vitleysingunum:

ALEIGAN

SIGGA: Hansi!
HANS: Sigga ... Sigga, ég var að tapa aleigunni.
SIGGA: Það gerir nú minnst til.
HANS: Þessi helvítis Soft-Gen bréf fóru alveg með mig. Hver átti von á því að þau myndu hrynja? Ég skil þetta ekki, ég er helmingi klárari en þessi fífl sem eru að græða hundrað milljónir.
SIGGA: Þeir gambla með tíu prósent. Þú gamblar með allt sem þú átt. Og líka það sem þú átt ekki. Þú ert áhættu- og spennufíkill.
HANS: Já, já, já, já! Sigga, manstu eftir bíómyndinni um hann Gunnar á Hlíðarenda með Hilmi Snæ? Manstu, það var sótt að Gunnari úr öllum áttum, bogastrengurinn brostinn og kellingin hans vildi ekki láta hann fá hárvisk í nýjan streng - eitthvað gamalt í hjónabandstráma, skilurðu - og Gunnar féll - hann dó Sigga - vantaði bogastreng ... Sigga má ég slíta lokk úr höfði þér til að bjarga lífi mínu?
SIGGA: Ég á enga peninga til að lána þér.
HANS: Mér dytti ekki í hug að biðja þig um peninga. En ef þú vildir vera svo væn að skrifa upp á skuldabréf fyrir mig.
SIGGA: Ég er skuldsett upp fyrir haus.
HANS: Þeir taka kennitöluna þína, ég er búinn að tékka á því. Þú ert allsstaðar í skilum. Þú veist hvað mér þykir vænt um þig.
SIGGA: Hvað ætlarðu að gera við þessa peninga?
HANS: Kaupa bréf í hugbúnaðarfyrirtæki. Þeir eru að klára forrit sem á aeftir að mala gull. Ég get komið inn á genginu tveir. Bréfin tífaldast í verði um leið og þetta lekur út. Treystirðu mér?
SIGGA: Auðvitað ekki. Hvar á ég að skrifa?
HANS: [Rífur upp skuldabréf. SIGGA hripar nafn sitt á bréfið.] Ég verð þér þakklátur til æviloka. Ættum við að sofa saman í tilefni dagsins?
SIGGA: Langar þig til þess?
HANS: Já, en þig?
SIGGA: Nei
HANS: Ekkert mál, ekkert mál.
SIGGA: Mér þykir óskaplega vænt um þig, Hans, þótt þú sért vandræðagemlingur.

(32-3)