Vísur um vötn

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1971
Flokkur: 

Myndir eftir Áslaugu Sverrisdóttur.

Úr Vísum um vötn:

Hafralónsá

Hér blánar allt af berjum
þar sem bergið er nakið sár.
Ég horfði ofan í ána
og engu líkara en hún

vildi seiða mig til sín og taka
mína tilbúnu sál á spún.

Ég lét hana ekki leiða
mitt líf inn í hamra til sín
en hristi hana af mér og horfði
yfir hvítbláan Þistilfjörð

þar sem heiðblár himinninn skoprar
á hafinu sólargjörð.

Svo héldum við áfram með ánni
og allt upp í Stapa og Þræl.
Og þar er allt þakið í köðlum
og þar eru sprungin gil.

Hver mundi ekki láta lífið
fyrir lax úr þessum hyl?

En kvöldið var bjart og kyrrðin
fór kuli um lyng og mó,
samt bærðist ei hár á höfði
og hafgolan kyrrðist við land.

Ég sá hvernig vatnið veður
sinn vængjaða ós upp í sand.

Þar vakir bleikja í veröld
sem er vinalegri en mín
og enginn ógnar þeim friði
nema ormur, fluga og stöng –

en eilífðin er samt hvergi
jafnóendanlega löng.