Víst er ég fullorðin

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

Úr Víst er ég fullorðin:

2

Það er ekki mikill tími til að taka upp gjafir þegar við komum heim úr kirkjunni því fyrsta veislan er að byrja. Fyrsta veislan af fjórum. Við getum bara boðið níu gestum í einu af því að borðstofuborðið er svo lítið. Við pabbi og mamma verðum að drekka með gestunum og það komst ekki nema tólf að borðinu og eiginlega bara tólf mjóir.
Við fylkjum liði smástund inni í skrifstofu og fjölskyldan afhendir mér gjafirnar.
Ég fæ úr frá mömmu og pabba. Það fá alltaf allir úr. Þegar Snorri bróðir fermdist var einn sem fékk myndavél í staðinn fyrir úr. Hann átti ekki sjö dagana sæla næstu vikurnar, greyið, því að hann vissi aldrei hvað klukkan var og enginn vildi segja honum það. Hann vann allt sumarið í saltfiskinum, baki brotnu, til að geta keypt sér úr um haustið.
Ég lít á gyllt Alpinaúrið á handleggnum á mér og segi ábúðamikil: „Klukkuna vantar kortér í fjögur.“
Nína litla gefur mér eyrnalokka sem fengust í kaupfélaginu og kostuðu 8,75. Hún hefur gleymt að krota yfir verðið sem er skrifað klunnalegum stöfum neðst á kassann. Hins vegar fylgir gjöfinni fínt kort sem hún hefur sjálf teiknað og prentað á: Til Soffíu. Frá Nínu.
Ég kyssi Nínu fyrir eyrnalokkana og segi henni að mér finnist þeir fínir og hún sé mjög dugleg að teikna og prenta, bara átta ára gömul.
„Ég var líka lengi að því, ég vandaði mig svo mikið,“ segir Nína.
Bræðurnir eru með í gjöfinni frá pabba og mömmu. Snorri er í menntaskóla og hefur enga peninga til að kaupa gjafir og Raggi litli er bara óviti ennþá, rétt þriggja ára.
Ég fæ rauða hliðartösku og rauða hanska frá ömmu. Blessun Guðs og ömmu fylgir með á korti. Ég fæ snöggvast tár í augun þegar ég hugsa um ömmu sem liggur uppi á spítala og missir af öllu gamninu. En nú er enginn tími fyrir sorg því ég þarf að opna alla pakkana og taka á móti gestum.

(s. 12-13)