Virkisvetur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1959
Flokkur: 

Úr Virkisvetri:

 Andrés sá um glufu í hurðinni að ljós voru borin fyrir, inn í skálann. Allt frá barnæsku hafði hann kviðið því liðlangt sumarið þegar kveikt yrði að hausti. Þá byrjaði myrkrið. Myrkrið í göngunum, myrkrið allt í kring. Myrkrið er ranghverfan á ljósinu eins og treginn er ranghverfan á feginleik. Og þó fylgdi því margt gott. Þó hófust inniverk og sögur á kvöldum. Þannig vegur hvað annað upp: guð jafnar ávallt vogaskál lífsins. Kunni menn ekki að stilla feginleik sínum í hóf, refsar hann þeim og sendir þeim tregann. Og kunni þeir ekki að bera trega sinn með auðmýkt, typtar hann þá, þar til hún er lærð.
 Þegar hann horfði nú aftur, seytján vetra gamall, þótti honum bernska sín og æska hafa verið drungaleg. Í rauninni hafði hann ekki leitt hugann að því fyrr en í þessari ferð, er hann reið í fyrsta skipti með föður sínum fullgildur maður, sjálfur orðinn eigandi höfuðbóls, Fells í Kollafirði, og tveggja jarða að auk, Skáldastaða og Berufjarðar.
 En hvað eru jarðir? Þær fylla aldrei hólfið í hjarta manns, þar sem einmanaleikinn geymir dyranna. Það herbergi er aðeins einum tjaldað og stendur nú tómt: nær fjórtán mánuði hefur hann saknað hennar; aldrei þó sárar en í þessari ferð. Er það af því, að honum finnist hann í fyrsta sinn fullorðinn maður? Eða lokar nú nálægð vetrarins þeim dyrum, sem hafa beðið hennar opnar liðlangt sumarið? Þegar þeir riðu út Barðaströndina og fóru heiðar, leit hann ætið fyrst yfir til Skarðsfjalls af hverri brún. Eitt sinn rofaði til, og honum þótti hann sjá örlítinn, grænan díl vestan undan fjallinu: hvað skyldi hún hafast að þessa stund? Rennir hún einnig huganum yfir fjörðinn endrum og sinnum? Og hann sökk niður í minningar sínar, meðan regnhviðurnar slöngvuðust hvítar með hlíðunum.
 Hann reisti sig upp í sætinu, renndi aftur í könnuna og ætlaði að ljúka úr henni, en fannst vínið óljúft. Í þögninni og rökkrinu mátti heyra vef sleginn inni í stofunni, háttfast, og honum þótti í svip sem ofnar væru saman regnhviðurnar og dumbt vefjarhljóðið frammi; stöku sinnum sló skeiðin glitþráð í gróft vafið: það var hreimurinn í frásögn Einars fóstra.

(s. 26-28)