Viltu byrja með mér?

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982
Flokkur: 

Anna Cynthia Leplar myndskreytti.

Úr Viltu byrja með mér? :

 Hann finnur augnaráð allra fyrir aftan sig stingast í bakið á sér. Hann þarf ekki að líta við því að hann sér fyrir sér glottið á Sigga og Gumma og heyrir pískrið í Þóru og Völu.
 Vandræðamanneskjan Hildur virðist fullkomlega sátt við að hafa hann fyrir sessunaut. Hún brosir til hans um leið og hún sest hjá honum og hann tekur eftir því að hún er með brún augu. Hann kreistir fram feimnislegt bros á móti og furðar sig á hvað hár hennar er kolbikasvart. Svo lítur hann ofan í borðplötuna.
 Að þurfa að hafa þetta við hliðina á sér allan veturinn! Það er skelfilegra en orð fá lýst. Hvers konar óhappadagur ætlar þetta eiginlega að verða? Fyrst sefur hann yfir sig, svo er sætinu hans stolið frá honum - og nú þetta sem er það allra versta!
 Þegar hún víkur sér að honum og biður hann að lána sér strokleður horfir hún svo óþægilega beint í augun á honum að hann fer hjá sér. Hann er ekki vanur því að það sé horft svona beint í augun á honum og allra síst er hann vanur svona stórum, brúnum augum.
 Hann fer að horfa á Íslandskortið sem hangir yfir töflunni beint á móti. Hann reynir að fylgja með augunum leiðinni frá Reykjavík og vestur í Aðaldal til afa og ömmu.
 Svo verður honum á að líta snöggvast til hennar - en þarf hún þá ekki endilega að vera að hvarfla augunum til hans líka!
 - Fínt að sitja svona framarlega, segir hún brosandi.
 Hann getur ekki annað en kinkað kolli.
 - Já, það er fínt, segir hann. Það er langbest að sitja fremst.
 Hann sér að hún er miklu sætari en hún virtist vera þegar hann sá hana í fjarska út við dyr. Það er ekki bara þetta dökka yfirbragð sem hann tekur eftir, þessi stóru, brúnu augu og þetta síða, svarta hár, heldur líka fasið, þetta frjálslega fas sem er laust við allt sem heitir feimni, þessar kviku hreyfingar og þetta fyrirhafnarlausa bros.
 Þegar hún skilar honum strokleðrinu og býst til að segja eitthvað við hann lítur hann undan af því að hann veit ekki hvernig hann á að vera. Hann lætur sem hann sé upptekinn við að rýna í landakortið, en leiðin vestur til afa og ömmu er allt í einu komin í móðu fyrir sjónum hans.
 Hann lítur af landakortinu ofan í gráa borðplötuna.

(s. 26-7)