Vil, vil ekki

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986
Flokkur: 

Úr Vil, vil ekki:

Elísa var fegin að komast í vinnuna þar sem allt gekk sinn vanagang. Hún var sífellt að læra eitthvað nýtt og skemmtilegt og fannst hver dagur vera fljótur að líða. Allt of fljótur, hugsaði hún einn daginn er hún sat á bókasafninu og raðaði í spjaldskrá. Veðrið var fagurt og hún heyrði fuglasöng. Henni kom í hug bréf Agnars. Hún lagði hendurnar á borðið og horfði út um gluggann. Í marga daga var hún búin að ætla að svara, en hvað átti hún að skrifa? Hann vildi fá hana heim og þau öll. Hún festi augun á fugli sem flögraði fyrir utan gluggann. Hann settist á trjágrein og söng svo undurfallega. Hann var frjáls. . . Ef hún reyndi að útskýra fyrir Agnari og þeim hinum hvað henni líkaði vel, gæti svo farið að þau fylltust grunsemdum um að hún vildi ekki koma aftur heim. Væri jafnvel að spá í einhvern strák . . . Og Elísa þekkti mömmu sína það vel og hennar fyrirætlanir að hún vissi að hún myndi ekki orðalaust eða afskiptalaust taka það í mál að dóttir hennar settist að í öðru landi eða ílentist þar lengur en henni þætti henta.
Elísa hristi höfuðið. Hvaða hugsanir voru núna að ruglast í höfðinu á henni. Auðvitað vildi mamma hennar henni allt hið besta og hvernig ætti henni að detta í hug að Elísa væri farin að hugsa um einhvern annan en Agnar.
Elísa sneri sér að spjaldskránni af kappi. Það var alveg útilokað að þau létu sér slíkt til hugar koma.
En nú voru flestir tilbúnir með efni fyrir kvöldvökuna, nema hún. Hún yrði að gera eitthvað í því. Hún var svo heppin að finna íslenskar bækur á bókasafninu, tók með sér nokkur bindi heim og lá yfir þeim. Það var skemmtilegt. Það rifjuðust upp fyrir henni minningar þegar hún las um álfa og huldufólk sem hafði vistaskipti á nýársnótt og eftir nokkra umhugsun ákvað hún að kynna Grýlu og Leppalúða fyrir hópnum.

(s. 69)