Vík milli vina

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1983
Flokkur: 

Úr Vík milli vina:

 - Ég get ekki súngið, segir Guðrún þegar Ingunn kemur inn í búníngsklefann eftir æfínguna, það herpist saman á mér kokið svo þessi litlu hljóð sem ég hef verða að engu.
 - Förum niðrí kjallara og fáum okkur einfaldan fyrir svefninn, segir Ingunn.
 - Þetta var hræðileg æfing, segir Guðrún.
 - Mér er skítsama.
 - Ég dey ef þetta gengur svona ílla á morgun.
 - Þetta er sýníng sem væntanlega uppfyllir allar þarfir, segir Ingunn og kveikir sér í sígarettu. Gagnrýnendur munu fara á kostum, gera stólpagrín að höfundi, leikendum og leikstjóra. Og skítasneplarinr sem þeir kalla dagblöð munu seljast betur fyrir vikið. Einhverjir munu fá úr honum af menníngarlegri hneykslun og eftilvill losnar um stífluna í nefinu á öðrum þegar þeir tíunda það hvað lekendurnir hafa lekið ílla og hvar lekhúsið sé eiginlega á vegi statt að taka til sýnínga lekrit á borð við þetta. áhorfendur afturámóti munu klappa og stappa að vanda og flykkjast á sýnínguna, gráta úr sér augun eða hlæja einsog vitlaust fólk. Bókað kassastykki! Nújæja, eða algjört flopp, sama er mér. Komdu, slökum á eitt augnablik.
 Guðrún slekkur ljósið í búníngsklefanum og þær gánga niðrí kjallara gegnum matstofuna og inní veitíngasalinn.
 Ingunn fer á barinn að kaupa tvo þurra martínisjússa handa þeim. Þegar þær standa á miðju gólfi í veitíngasalnum og skyggnast um eftir borði, hnippir Ingunn í Guðrúnu.
 - Líttu ekki á þá átt sem ég horfi nema þú viljir endilega sjá eiginmann þinn og hans fylgifé. Guðrún snýr sér við og sér Halldór hvíla höfuðið við öxl Aðalbjargar.
 - Jæja, segir Ingunn, nú er um tvennt að velja fyrst þú endilega vildi snúa nefinu í þessa átt, strunsa burt eða gróðursetja okkur við borðið hjá þeim. Guðrún þarf ekki að taka ákvörðun, Halldór er búinn að koama auga á þær og bendir þeim að koma.
 - Dr. Livingstone, I presume? segir Ingunn þegar hún sest.
 - Má ég þá spyrja, hvað eruð þið að gera hér úií frumskógi um þetta leyti daginn fyrir frumsýníngu á hinum ódauðlega söngleik Bananabörkurinn? spyr Halldór. Á dauða mínum átti ég von á en ekki því að þið færuð að gera mér þá ánægju að flækjast hér um með glas í hönd. Hver stjórnar þessu leikhúsi, forstjóri Tóbaks- og áfengiseinkasölunnar?
 - Þú hefur greinilega ekki átt von á okkur, segir Ingunn, andlitið á þér er einsog púsluspil sem einhver hefur hlaupist frá. En fyrst við erum hér saman komin, væri þá úr vegi að heyra frá sjálfum fastafulltrúanum hvað umræðan í Kjallaranum snýst um í augnablikinu? Eða var hann kannski bara að gá að mergi í eyranum á Aðalbjörgu?

(s. 93-94)