Við Urðarbrunn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

2. útgáfa 1996, 3. útgáfa 1998.

Við Urðarbrunn og framhald hennar, Nornadómur (1994) voru gefnar út í einu lagi undir titlinum Korku saga árið 2001.

Úr Við urðarbrunn:

Gamla konan efaðist ekki um að blóð af hennar blóði rynni í æðum þessarar rauðhærðu ambáttardóttur. Þrátt fyrir háralitinn var stúlkan lifandi eftirmynd Höllu, dótturinnar sem hafði verið tekin frá henni í blóma lífsins. Síðan voru liðnir áratugir en Úlfbrún hafði engu gleymt. Hæfileikar Höllu voru greinilegir allt frá upphafi og Úlfbrún hafði byrjað að kenna henni ungri. Í útliti hafði Halla verið líkust móður sinni af öllum hennar börnum. Hún virti fyrir sér vangasvip sofandi stúlkunnar. Liðað hárið lá laust og einn lokkur hafði límst við sveitt ennið. Úlfbrún strauk hann burt og brosti við. Keltneskt blóð, í fyrsta sinn í hennar ætt. Svo hún vissi til, minnti hún sig á. Því eflaust voru þau víðar, launbörn fædd af ambáttum og frillum, jafnt á Írlandi sem heima í Noregi. Einhver hefðu ef til vill orðið að lúta lögmálinu sem kvað á um að ef marga munna þyrfti að metta yrðu börn þræla fyrst að víkja úr vegi. Hún minntist hallærisveturs heima í Noregi fyrir mörgum árum, þegar tugir sauða féllu úr hor og kulda og sjúkdómar felldu helminginn af nautgripunum. Þórir hafði látið drekkja fimm krógum þann vetur. Elsta þrælnum hafði verið blótað í keldunni á jólum í von um að tíðarfarið batnaði. Úlfbrún ýtti þessum óþægilegu hugsunum frá sér. Ambáttardóttir eða ekki, rautt hár eða ljóst, það skipti engu. Korka var hennar afkomandi og í henni bjó kraftur sem yrði að beina í réttan farveg. Enn vissi hún fátt um upplag Korku en hún myndi fljótt fá úr því skorið hvort hún hefði ekki túlkað rúnirnar rétt. Og henni hafði sjaldan skjátlast til þessa. Gamla konan hnyklaði loðnar brýnnar og minntist þess að líklega yrði ekki langt þar til hún gengi á vit eigin forlaga. En hvað um það, hún myndi nota þann tíma sem gæfist. Úlfbrún forna glotti. Hún var búin að sitja með hendur í skauti nógu lengi.

(s. 33 - 34)