Vetrarsól

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008
Flokkur: 


Um bókina:

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Arndísi Theódórsdóttur, hún sást síðast við Korpúlfsstaði síðastliðinn föstudag …
 
Sunnu bregður í brún þegar hún sér tilkynninguna á netinu. Hún á bágt með að einbeita sér að glæpasagnanámskeiðinu sem hún á að sjá um því minningarnar frá samveru þeirra Arndísar í Barcelona sækja á hana. Auk þess eru jólaannir á forlaginu og lítill tími til að leita að týndri vinkonu. Ekki bætir úr skák að Axel sambýlismaður hennar er endalaust veðurtepptur á Ísafirði og Sunna er ein með tíu ára syni hans sem hún þekkir lítið. Þegar hún verður vör við að þrír framandi menn veita henni eftirför er engu líkara en að líf hennar sjálfrar sé að verða að glæpasögu …


Úr Vetrarsól:

Ég vil Valgarð, segir kvensnift í buxnadrakt með aflitað hár bundið í hnút. Glákuhimna deyfir blámann í útstæðum augunum sem stara á mig. Hún minnir á fugl því nefmjónan tifar meðan orðin dansa út úr munninum. Ætli hún heiti Lóa? Ég gjóa augunum á starfsmannanæluna í kraganum og sé að hún heitir Ragnheiður Kjærnested, titluð sölustjóri bóka.

Ef þú vilt selja hann á annað borð verðuru að taka eitthvað af hinum höfundunum líka, segi ég með fangið fullt af bókum og finn samtímis sársaukasting í hægri öxlinni, vöðvabólgan ágerist á þessum tíma árs. Staðfastar horfumst við í augu a upplýstu flúorgólfi stórmarkaðarins. Á hægri hönd er borð hlaðið gylltum jólaenglum, á vinstri hönd borð með úrvali jólabóka í öllum flokkum. Þessu 20 fermetra gólfrými, sex borðum og vörunum á þeim, stjórnar hún.

Konan hnussar: Viltu að ég hafi þetta eftir þér við hann?
Spurningin hleypir í mig kergju; í bríaríi fullyrði ég að Valgarður sé með leyninúmer, þess utan sé okkur vel til vina, mér og honum.

Ég skila þá kveðju, segir hún roggin.

Hvað áttu við?

Ég hitti Valgarð stundum í jólaboðum. Hann er hálfbróðir svila míns.

Gerðu það endilega, segi ég máttlítil, vind mér að bókaborðinu og spyr hvort hún vilji virkilega ekki fleiri barnabækur frá okkur.

Það held ég varla, segir hún. Reyndar hef ég hugsað mér að skila furðusögunni um bangsann sem Þorgeir, kollegi þinn, prangaði inn á aðstoðarkonu mína. Þetta er ekki barnabók heldur eitthvert heimspekistagl með drungalegu kroti sem hræðir börn. Til hvers að innræta börnum efa um allt þegar brýnast er að þau upplifi öryggi? Það er enginn tilgangur með þessum bókum, nema síður sé. Í sannleika sagt terrorísera þær ómótaðar sálir. Rugla veruleika þeirra. Láttu mig vita það, ég á sjálf þrjú börn. Átt þú börn?

Nei.

Ha?

Nei, endurtek ég. Því miður. En ég get fullvissað þig um að þessar bækur eru einstakar, þær eru eftir þýskan heimspekikennara og þykja bylting í uppeldisfræðum vegna...
Hún grípur orðið: Þær geta verið stórvinsælar í útkjálkaháskólum á Þýskalandi en annað gildir hér. Sem móðir þykist ég vita meira um íslensk börn en þýskur piparsveinn. Hvað ertu með fleira, góða? Ég má ekki vera að því að rabba um uppeldisfræði.

(s. 34-35)