Vetrarborgin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2005
Flokkur: 

Um bókina:

Á köldum janúardegi er lögreglan kölluð að blokk í Reykjavík þar sem lík hefur fundist í garðinum. Þetta reynist vera stálpaður drengur, dökkur á hörund sem liggur á grúfu í blóði sínu, frosinn fastur við svellið. Illur grunur kviknar um skelfilegan glæp. Erlendur, Elínborg og Sigurður Óli hefja rannsókn málsins og utan úr myrkri og hríðarkófi birtast um síðir staðreyndir sem eru jafnvel nöturlegri en vetrarnótt við heimskautsbaug.

Lesið umfjöllun Gunnþórunnar Guðmundsdóttur um bókina hér á Bókmenntavefnum. 

Úr Vetrarborginni:

Þegar Erlendur kom í skólann snemma daginn eftir ásamt Elínborgu og Sigurði Óla var nýbúið að hringja út í frímínútur. Krakkarnir gengu hljóðlega um gangana. Kennarar og gangaverðir stjórnuðu flóðinu og allir útgangar skólans stóðu opnir upp á gátt. Það hafði snjóað undir morguninn. Yngri krakkarnir ætluðu að nýta hverja stund í frímínútunum til þess að leika sér í snjónum. Eldribekkingarnir tóku lífinu með meiri ró, húktu undir vegg eða röltu í litlum hópum í átt að sjoppunni.

Erlendur vissi að áfallahjálp var í boði fyrir krakkana í bekk Elíasar og sumir foreldrar nýttu sér hana. Þeir höfðu fylgt börnunum í bekknum í skólann og látið í ljós áhyggjur við kennarann. Skólastjórinn var búinn að ákveða að kalla nemendur og starfsfólk inn á sal í hádeginu þar sem yrði kyrrðarstund í minningu Elíasar. Prestur hverfisins ætlaði að ávarpa nemendurna og fulltrúi frá lögreglunni myndi biðja hvern þann sem vissi um ferðir Elíasar eða nokkuð það sem komið gæti lögreglunni að notum við rannsókn á láti hans að láta kennara, skólastjóra eða lögreglu vita. Gefin yrðu upp sérstök símanúmer sem hringja mátti í án þess að láta nafns síns getið. Allar ábendingar yrðu rannsakaðar, hversu smávægilegar sem þær væru. Sigurður Óli og Elínborg ætluðu að spyrja börnin í bekk Elíasar um síðasta daginn í lífi hans en málið var vandasamt vegna þess að leyfi þurfti frá foreldrum til þess að spyrja þau. Agnes, bekkjarkennari Elíasar, hafði verið mjög samvinnuþýð og hringt í foreldrana snemma um morguninn og fengið leyfi flestra þeirra til þess að lögreglan, í samstarfi við Barnavernd Reykjavíkur, gæti safnað mikilvægum upplýsingum. Hún tók það skýrt fram að ekki væri um eiginlegar yfirheyrslur að ræða, aðeins upplýsingasöfnun. Sumir vildu vera með barninu sínu þegar það var spurt spjörunum úr og stóðu með áhyggjusvip á ganginum. Sigurður og Elínborg voru þegar sest niður með krökkunum, einum og einum í senn, og fengu til þess auða kennslustofu.

(s. 94-95)