Vestur í bláinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Úr Vestur í bláinn:

 Innar í salnum sá Þóra stúlkuna sem stóð og skimaði út í rökkrið. Þegar hún kom auga á Þóru færðist bros yfir andlitið og hún gekk yfir gólfið til hennar.
 „Komdu sæl og blessuð,“ sagði stúlkan og þrýsti hönd Þóru. „Ég var alltaf að vona að þú kæmir.“
 „Komdu sæl,“ svaraði Þóra og hafði ekki hugmynd um hvernig hún ætti að haga sér gagnvart þessari dularfullu stúlku. „Ég vissi bara ekkert af þér ...“ stamaði hún, „ég hef aldrei komið hingað áður.“ Stúlkan var minni en hún virtist vera á málverkinu, höndin lítil en hrjúf og augljóslega vön vinnu.
 „Þú varst svei mér heppin að hitta á óskastund,“ sagði stúlkan og brosti.
 „Óskastund?“ hváði Þóra.
 „Já, þegar málverkin lifna.“
 „Ég veit eiginlega ekkert hvað er að gerast,“ hvíslaði Þóra.
 „Þetta gerist nú ekki á hverri nóttu,“ svaraði stúlkan.
 „Segðu mér hver þú ert og af hverju allt er svona skrýtið,“ tókst Þóru að stynja upp.
 En stúlkan svaraði henni ekki, hún kreisti áköf hönd hennar og sagði: „Mikið er ég fegin að sjá þig.“ Svo horfði hún djúpt í augun á henni og bætti við: „Komdu með mér.“
 „Hvert?“ spurði Þóra óörugg.
 „Haltu fast í höndina á mér svo að þú dettir ekki,“ sagði stúlkan og teymdi Þóru í áttina að málverkinu. „Reyndar sýnist mér þú vera á góðum skóm.“
 „En bíddu, hver ertu?“ spurði Þóra, hækkaði róminn og nam staðar.
 „Ég heiti Magnea Hrólfsdóttir,“ sagði stúlkan hlýlega og tók utan um Þóru, „ég ætla bara að sýna þér hvernig er hjá okkur. Þú þarft ekkert að óttast, treystu mér, ég lofa því að gæta þín.“
 „Og hvert förum við?“
 „Þangað sem þú tekur þátt í öllu en enginn sér þig!“
 „Hvað áttu við?“ stamaði Þóra.
 „Þú upplifir allt með mér, bæði gott og vont.“
 „En ég er svo hrædd,“ hvíslaði Þóra sem skalf í hnjáliðunum og kreisti aftur augun. „Þú hefur enga ástæðu til þess,“ svaraði Magnea rólega. „Ég er búin að segja þér að treysta mér og mundu að ekkert kemur fyrir þig.“
 Þóra róaðist við að finna ylinn frá hrjúfri hönd hennar í lófa sér, svo herti Magnea takið og saman lyftu þær sér frá gólfinu og hurfu inn í málverkið á veggnum.

(s. 38-40)