Vélar tímans: Skáldsaga Íslands III

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Þriðja bókin í flokknum Skáldsaga Íslands. Hinar fyrri eru Myndin af heiminum (2000) og Leiðin til Rómar (2002).

Úr Vélum tímans:

Förinni er heitið vestur yfir sanda og vestur yfir ár frá Breiðabólstað að Skálholti. Er þetta ekki sama leið og Gissur hvíti fór í Njálu til að ganga á milli bols og höfuðs á Gunnari á Hlíðarenda - í hina áttina? Gaman væri að geta skellt niðaldalýsingunni inn í textann, en þegar til á að taka reynist hún í rýrara lagi: ,,fóru þeir austur yfir ár og austur yfir sanda er allt og sumt sem Njála hefur til málanna að leggja.

Séra Oddur er eins og maðurinn í Sturlungu sem sorgir hans voru þungar sem blý. Til viðbótar árauninni við að koma allri þessari þjóð í jörð og himin kemur missir fylgikonu og tveggja barna. Því þótt prestum sé forboðið að kvænast veita þeir holdi sínu útrás með óheimilum konum sem ala þeim bastarða sem vegja með föðurnum áþekkar tilfinningar og skilgetin afkvæmi.

En hórbörn eiga ekki upp á pallborðið í himnaríki, hvað þá hórkonur. Einasta huggun Odds er að hann geti með bænum og áheitum þokað þeim áleiðis í hreinsunareldinum í von um endurfundi í Paradís.

Natan aftur á móti er strax farinn að hlakka til endurfundanna á Einhyrningi. Hann er aftur kominn með rakaða krúnu og svalt loftið leikur um hvirfilinn. Á milli þess sem hann brýtur heilann um hvað biskupinn geti viljað honum nýtur hann viðbrigðanna frá því að berja fótastokkinn á Lurki yfir í taumhald á móvindóttri hryssu sem er bæði vökur og viljug og ber nafn með rentu: Nótt.

Holtin og móarnir eru ein samhangandi fæðingardeild og niðri á söndum steypa sér yfir riddarana kríur eins og skapstyggar hjúkkur sem æpa að gestinum að það sé ekki heimsóknartími.

Rakaðir hvirflar mannanna liggja vel við goggi og til marks um hve Oddi er öllum lokið að hann ber ekki einusinni hönd fyrir höfuð sér á meðan Natan kiprar sig í herðum og setur upp hettu.

Þeir hafa hvergi viðdvöl á bæjum, fá sig ferjaða yfir Þjórsá, fara dagfari og náttfari og koma í Skálholt miðju báðu óttu og miðmorguns.

(59-60)