Veður ræður akri

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1981
Flokkur: 

Úr Veður ræður akri:

Mort du roi du rock, Elvis Presley

Í dag segja blöðin
að konungur rokksins
sé dáinn, ímynd æsku
þessara trylltu tíma
mátti ekki vaxa úr sér
eins og gras í rigningatíð.

Dauðinn fór honum vel
eins og á stóð.

Aðeins 42ja ára
féll goðið að velli
í síðustu orrustunni
sem alltaf lýkur
á einn veg: hann hrópaði ekki
a kingdom for a horse,
en við minnumst hans af því hann lagði
dálitla áherzlu á það í sakleysi
æsku sinnar að eitt skiptir máli
öðru fremur, það sem fólst
í söngvum hans sjálfs:
live a little, love a little
og færi vel sem grafskrift
þessa þagnaða söngfugls.

Þannig kvaddi hann æsku sína og okkar
eins og nýslegið gras
á stuttu vori:
stúlka grét í sjónvarpi
önnur trúði því ekki
að goðið væri hnigið að velli
að Elvis Presley gæti dáið,
goðsögn þessarar kynslóðar
sem gleymdi að lifa og kann ekki að deyja,
ungur aðdáandi sagðist hafa dreymt hann
á rokkhátíð í Hollywood
en þá hneig hann allt í einu dauður niður:
It’s over.