Vatn á myllu kölska

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1978
Flokkur: 


Úr Vatni á myllu kölska:

Klukkan er rétt rúmlega tvö þegar Gunnar Hansson tekur ákvörðun um að hundskast á stofnunina. Hann getur að minnsta kosti stimplað sig inn samkvæmt boðorðinu: Betra seint en aldrei.
Hann hríngir á leigubíl.
Þegar niðureftir kemur stimplar hann á kortið sitt, hjalar eitthvað við símastúlkuna (tilað fullnægja skyldunni um alþýðlegt fas – símastúlkan lítur ekki upp frá því að sverfa á sér neglurnar), svo opnar hann dyrnar að Upplýsínga & Fróðleiksdeildinni og stikar inn gánginn. Inní óvinalandið.
Dagskrárgerðarmennirnir og fréttamennirnir sitja flestir fyrir opnum dyrum, lesa dagblöðin, hreinsa úr pípum (sem er aðalstarf sumra), skafa undan nöglunum eða glápa útum gluggana. Sumir líta upp þegar Gunnar gengur hjá og kasta á hann kveðju, en hann gerir engan stans, hann er ekki í skapi tilað lenda á kjaftatörn um bíla, húsbyggíngar eða fyllerí, hvaðþá hann sé undir það búinn að heyra nýjar sögur af dáðum yfirmanna stofnunarinnar.
Kristín er að vélrita eftir segulbandi. Hún slekkur á segulbandinu og ritvélinni þegar hann gengur inn, snýr sér á stólnum og býður góðan dag brosandi. Hann tekur eftir því að hún er klædd í pils. Hann hefur aldrei áður séð hana í pilsi.
- Hvar er Björn? spyr hann.
- Það eru hér norrænir sérfræðingar um gervihnattasjónvarp, svarar hún, hann situr á fundi með þeim.
- Mér sýndist það á mannskapnum hérna frammi að hann væri fjarstaddur, segir Gunnar Hansson. Hvaða vit þykist hann hafa á gervihnöttum?
- Það er nú ekki einsog hann eigi að gera við þá ef þeir bila, segir stúlkan og kímir. En mér skilst að rekstrarstjórinn sé ákaflega áhugasamur um gervihnettina.
- Hvað ert þú að dunda? spyr Gunnar Hansson.
- Ég er að vélrita eftir segulbandinu viðtölin sem ég tók við verkakonurnar, segir Kristín. Þú hefur kannski tíma tilað hlusta á þau?
- Það er óþarfi, segir Gunnar Hansson, það verður ekkert úr þeirri mynd.

(s. 113-114)