Úr þotuhreyflum guða

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Slitur úr gömlum formála

ég hef ekkert
að segja
en

ég hef stolið þotuhreyflum úr draumi guða
og er á leið inní sólina
eftir handfylli af sprengibjörtum augnablikum

ég stend á herðum tímans
og sé sjónvarpsstöðvar
verða að söfnum gleymskunnar

ég bryð kletta
svo vindsamt augnaráð konunnar
feyki ekki blóðinu úr farvegi sínum

ég er með handtökuheimild á eilífðina
geri dauðann að sendisveini
og á stefnumót við vindinn

ég hef ekkert að segja en
tungumálið
er konan í lífi mínu;
krjúpandi við fótskör hennar
gruna ég svik bak við hvert orð
hvern staf

líkt og langsoltinn
í faðmi margnotaðra kvenna

ég hef ekkert að segja en

verður stundum hugsað til þín

sem hefur fundið tilgang lífsins
og átt við fituvandamál að stríða

verður stundum hugsað til þín

þegar

rákin
sem sólin skildi eftir á niðurleið
er óðum að hverfa
og kvöldhiminninn breiðir úr sér
þakin sæðisslettum guðs