Úr snöru fuglarans: Uppvaxtarsaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986

Úr Úr snöru fuglarans

Stúdentahópurinn flykktist niður landganginn með glaðværum hrópum og hvellum hlátrum eftirað hann hafði hlýtt hljóður á heimamenn syngja Lýs milda ljós og Ó Guð vors lands. Ég stóð álengdar á bryggjunni með dúndrandi hjartslátt og reyndi að koma auga á Carmelitu í mannþrönginni. Kvíði og tilhlökkun toguðust á og slitu mig nálega í sundur. Góð stund leið uns ég sá henni bregða fyrir við borðstokkinn aftarlega í þvögunni og síðan feta sig varlega niður landganginn. Áðuren hún var komin hálfa leið niður þrepin var góðvinur minn Erik Dahla kominn á vettvang grár og gugginn, heilsaði mér hjartanlega og spurði vafningalaust hvort hann mætti ekki sofa í herberginu hjá mér meðan skipið stæði við; hann væri miður sín af riðu og sjóveiki og þyldi ekki við um borð. Á því sá ég enga meinbugi, en hafði varla orðinu sleppt þegar Carmelita stóð andspænis mér lágvaxin og kvik, brosti svolítið dapurlega sínum tindrandi augum og tók þétt í hönd mér. Við horfðumst í augu andartaksstund og mér var skapi næst að vefja hana örmum, en vissi sem var að hún mundi ekki kæra sig um opinská blíðuhót frammifyrir stúdentahópnum. Til að segja eitthvað spurði ég hvernig ferðin hefði gengið og fékk þau svör að hún hefði verið kvalræði frá upphafi til enda. Carmelita kvaðst vera með sjóriðu og klígju og verða að komast í aðra vist hið bráðasta; á skipinu væri sér ekki vært stundinni lengur, ef hún ætti að halda heilsu og taka þátt í mótinu.

Ég leit vandræðalega til Eriks sem óðara tók af skarið, kvaðst mundu þrauka um borð og bað mig fyrir hvern mun veita vinkonu minni úrlausn. Málalyktir urðu þær að ég fór með Carmelitu og farangur hennar í herbergið á Garði, tíndi saman eigin föggur og selflutti í herbergið til Guðgeirs, en kveðjur urðu heldur ópersónulega og endasleppar. Hún sagðist vera úrvinda og ekki viðmælandi fyrren í fyrsta lagi á morgun.
 Á leiðinni uppí Þingholtsstræti var mér þungt fyrir brjósti þegar ég rifjaði upp endurfundinn á bryggjunni og eftirmál hans. Við höfðum að vísu heilsast með hlýju handtaki og Carmelita jafnvel þrýst hönd mína þéttar en hún átti vanda til, en líkamleg vanlíðan legið svo þungt á henni að frekari vinahót voru ekki sýnd. Ég skildi að henni var fyrir mestu að komast sem allrafyrst heim í herbergið og taka á sig náðir afþví fyrir höndum var strangur dagur, en samt gat ég ekki sætt mig við hve afsleppur fyrsti fundur okkar hafði verið. Mér fannst samræður okkar hafa verið flausturslegar og snubbóttar; enginn sá hlýjutónn eða blíðlæti sem mig hafði dreymt um í heilt ár. Bráðlæti og skilvirkni höfðu verið einkunnir hins langþráða en skammvinna endurfundar - og ég sá skýjaborgirnar hrynja yfir mig með braki og brestum þarsem ég þrammaði þungstígur gegnum Hljómskálagarðinn uppí Þingholtsstræti og kveið því mest að mæta augliti Guðgeirs og þurfa kannski að segja honum allt af létta. Hann vissi hug minn til stúlkunnar og hafði opinskáar áhyggjur af flasræði mínu og látlausum tilfinningasveiflum sem hann var manna kunnugastur.

(s. 222-223)