Upprisan eða undan ryklokinu

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1976
Flokkur: 

Myndskreytingar eftir Alfreð Flóka.

Úr Upprisunni eða undan ryklokinu:

Í dimmum matsal í skipi á hafi úti situr fjölskylda við veisluborð. Einn drengurinn er dáinn. Samt situr hann þarna. Gerðu svo vel segir konan treglega og þau líta til mín með vanþóknun. Á borðið fellur dauf ljóskeila. Við hlið mér situr skáldið. Fölur beiningamaður í hvítum serk. Ljósið snertir andlit hans. Ég þekki hann ekki. Konan ávítar skáldið: Þú verður aldrei að manni. Þú hefur aldrei verið á sjó. Ég skal sýna þeim hvernig á að borða hugsa ég og byrja að rífa í mig réttina af græðgi. Þetta borð er hlaðið dýrlegum mat. Ég háma í mig þangað til fjölskyldan lætur frá sér hnífa og gafla og horfir á mig í undrun. Ég get samt ekki hætt. Farðu! segir konan reið. Þú ert ekki velkominn hér. Ég rís á fætur og gríp um leið disk og hrúga steiktum pylsum á diskinn. Ég þríf súkkulaðiköku með vinstri hendi. Skáldið situr hnípinn og horfir í gaupnir sér. Fyrir framan hann stendur blikandi stálfat fullt af kaldri ýsu. Þegar ég sé fiskinn fyllist munnur minn af vatni. Skáldið snertir ekki matinn. Konan vísar mér til herbergis. Ég lít út um kýraugað. Við erum á plánetu þar sem ekkert land er að finna. Aðeins bleksvart haf umlykur þennan hnött. Ég sest á rúmið og konan bendir á ótal slagbranda um leið og hún lætur aftur járndyrnar og segir: Það er svo gott að geta læst að sér á nóttinni þegar maður er einn.

(s. 18-19)