Undir kalstjörnu: Uppvaxtarsaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1979

Úr Undir kalstjörnu

Mamma

Það voru komin tvö ár síðan mamma hvarf frá okkur til Vífilstaða. Lengi framanaf hafði hún legið rúmföst, en við systkinin áttum þess sjaldan kost að heimsækja hana. Þessi langi aðskilnaður hafði smámsaman deyft söknuðinn eða þokað honum til hliðar. Tíminn og tvíburabróðir hans vaninn höfðu þegar dregið úr sársaukanum. En nú var mamma á batavegi og fékk leyfi til að heimsækja okkur mánaðarlega. Það var eins og lífssólin yrði alltíeinu skærari, en þeirri birtu fylgdu þeim mun dýpri skuggar. Í hvert sinn sem mamma kvaddi varð söknuðurinn nálega jafnóbærilegur og í öndverðu, þó von væri á henni aftur eftir mánuð. Ég átti langar andvökunætur eftir hverja heimsókn og velti stöðugt fyrir mér hvort og hvenær hún kæmi alkomin til okkar aftur.

 Ég var farinn að skilja fleira en áður og skynjaði að afturhvarf hennar til okkar hefði í för með sér vanda sem kannski yrði ómögulegt að ráða framúr. Marta var fyrir á heimilinu með litla son sinn og yrði ekki hrakin burt. Kannski færi hún af sjálfsdáðum einsog Sveina systir hennar forðum, en ég var farinn að efast um það. Var þá nokkur lausn hugsanleg?

 Efasemdir mínar áttu meðal annars rætur að rekja til þess hve erfitt ég átti með að sofna á kvöldin, sem var vitaskuld nátengt því hve lengi ég svaf frameftir á morgnana nema þegar veður var gott og sækja þurfti hestana til útlána.

Andvökunæturnar voru lengstar og erfiðastar þegar pabbi var drukkinn. Yngri systkinin voru kvöldsvæf og sváfu vært inní svefnherbergi hjá Mörtu og pabba þó þannig stæði á, en ég lá vakandi framí stofu og fylgdist með öllu sem fram fór. Margar þessar nætur voru mér hreint kvalræði, því ég fylgdist með ástalífinu inní svefnherbergi, hlustaði á nístandi marrið í hjónarúminu og heyrði ýmislegt sem ekki var ætlað mínum hlustum. Væri pabbi mikið ölvaður var Marta iðulega treg til að þýðast hann. Af því spunnust langar orðræður og nagg sem stundum lauk með hótunum, öðrum stundum með hjartnæmum loforðum. Hótanirnar voru einlægt á þá leið að pabbi skjögraði framí eldhús, sótti stóra brauðhnífinn og hótaði að farga sér. Eina nótt fór hann á nærfötunum með hnífinn útí hesthús og kvaðst ekki mundu láta sjá sig framar á þessu heimili.

Þessar hótanir vöktu mér undantekningarlaust ofsahræðslu, því ég gat ekki hugsað þá hugsun til enda hvað um okkur yrði ef pabbi félli frá eða hyrfi burt. Þegar þannig stóð á óskaði ég þess að heitt og innilega að Marta væri honum eftirlátari, en þær frómu óskir vöktu afturámóti yfirþyrmandi sektarkennd, því mér fannst ég vera að bregðast mömmu í hjarta mínu, svíkja það sem mér var heilagast á jörðinni. Heilt ár lifði ég í þessum nagandi ótta við að pabbi gerði alvöru úr hótunum sínum og ásakaði sjálfan mig fyrir þessar leyndu óskir.

(s. 154-155)