Undir eldfjalli

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Úr Undir eldfjalli:

Og núna þegar hún stóð við gluggann í vistlegu hótelherbergi á Hótel Sögu virtist sem þessi undarlegi ótti hefði verið ástæðulaus. Umhverfið var framandi. Leiðin inn í Reykjavík hafði verið vörðuð semfelldri byggð sem huldi gömul kennileiti. Stanslaus straumur bíla á malbikaðri hraðbraut og svo þetta hótel. Út um gluggann mátti sjá heil íbúðarhverfi úr steinsteypu og jafnvel háhýsi hér og þar. Þetta var stór borg orðin. Og ókunnug. Svo undarlega frábrugðin þeim bæ sem hún hafði kvatt tólf ára gömul þegar þær sigldu, móðir hennar og hún . . . mamma, hlæjandi og veifandi af skipsfjöl. Árið 1945. Gat það átt sér stað að allt þetta gamla væri horfið? Var það þetta sem tíminn vildi sýna henni? Að skemmtiferð væri það eina sem byðist! Kannski áttu þau ekki völ á öðru en vera tveir ókunnir ferðalangar í skoðunarferð laus við öngstræti og arfagarða bak við hús! Hún tók því næstum sem góðum fyrirboða þegar Teddi spurði hvort ekki væri kjörið að byrja sumarleyfið með reglulega góðri máltíð á þessu fína hóteli. Hún samsinnti án umhugsunar. Þreytan komst ekki lengur að. Forvitnin knúði hana áfram og þau drifu upp úr töskunum, skoluðu af sér ferðarykið undir fossandi sturtunni og héldu upp á áttundu hæð í stóra matsalinn. Þar blöstu við þeim háir gluggar á þrjá vegu.
 Hún horfði agndofa yfir borgina þar sem hún teygði úr sér upp frá sjó og inn til lands líkt og hún væri að leita til fjalla. Og hún gat ekki annað en brosað með sjálfri sér því aldrei áður hafði Reykjavík legið svona fyrir fótum henni. Fyrst í stað var hún algjörlega ringluð og vissi ekki hvert hún ætti að líta. Hún skimaði, lokaði augunum ráðvillt og fæturnir, litlir fætur faldir einhvers staðar í hugskoti hennar fundu áttina og Skerjafjörðurinn glampandi af sólbirtu eins og fægður skjöldur vísaði henni veg. Grímsstaðaholtið! Þarna var það! Eða hvað? Þarna stóðu eintóm fjölbýlishús! Snögg eftirvæntingin sem hafði gripið hana breyttist í vonbrigði. Tilfinningar toguðust á, svo hjaðnaði í huga hennar og með vissum létti hugsaði hún: Já, jæja, kannski eins gott.
 Það var ekki fyrr en hún stóð við austurgluggana sem hún sá gamalkunnugt umhverfi: máluð bárujárnsþök í röðum upp af Kvosinni. Og Tjörnina! Hún renndi augunum hvatlega yfir húsaröðina við Tjarnarendann og taldi sér trú um að hún væri ekki að leita að neinu sérstöku þegar Teddi sem hafði gengið frá einum glugga til annars milli Snæfellsjökuls í vestri og sjávar í suðri, stóð við hliðina á henni.

(s. 38-40)